24.10.2008 | 14:12
7. október-Svarti þriðjudagurinn
Eftir Kastljósþáttinn í gær má þjóðinni vera ljóst, hvað í raun og veru gerðist í samskiptum okkar við Breta þann 7. október s.l. Að morgni þess dags ræddu þeir saman í síma, Darling, fjármálaráðherra Breta og Árni Matthíassen, fjármálaráðherra Íslands. Þar játar Árni, þegar á hann er gengið, að fjármálasukk íslenskra banka í Bretlandi, sé vaxið íslenska ríkinu yfir höfuð og það virðist ekki geta axlað þá ábyrgð, sem það beri, lögum samkvæmt. En hann reynir eftir fremsta megni, að koma málinu í sem æskilegastan farveg fyrir Íslendinga. Að lokum verða þeir fjármálaráðherrarnir sammála um, að viðræðum milli ríkjanna skuli haldið áfram.
Þetta samtal þeirra Darlings og Árna hreinsar þann síðarnefnda og aðra íslenska ráðamenn ekki af því andvaraleysi, sem þeir hafa alla tíð sýnt varðandi starfsemi íslenskra fjárglæframanna, innan lands og utan. En því skal þó haldið til haga, að hann reynir í þessu samtali, að koma mannskapnum um borð í björgunarbátana.
Sú viðleitni reyndist því miður til lítils. Þetta sama kvöld, 7. október, kom Davíð Oddsson fram í Kastljósi. Í stað þess, að fagna því, að Árni skuli þó hafa komið landanum frá borði hins sökkvandi skips, að vísu í miklum ólgusjó, þá gerir hann sér lítið fyrir og skýtur björgunarbátana í kaf; alla með tölu. Púðrið sem hann notað í kanónurnar, var eins og vant er af hans hálfu, gert úr hroka, yfirlæti og fullkomnu ábyrgðarleysi. Helstu stuðningsmenn hans kalla þetta víst húmor".
Það færi betur á að þjóðin hefði þetta í huga, ekki til að koma allri sök á Davíð, heldur vegna hins, að atburðarás síðustu daga þarf að vera ljós, til að þjóðin geti hafið endurmat á eigin sukki.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég vil þakka þér málefnaleg, áhugaverð, oft fræðandi og alltaf skemmtileg skrif á bloggsíðu þinni. Ég hef lesið hana oft mér til mikillar ánægju og vona að svo verði áfram.
Bestu kveðjur,
Ragnheiður Linnet
Ragnheiður Linnet (IP-tala skráð) 25.10.2008 kl. 12:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.