Steinn Steinarr LXX

Hver var hann, þessi ungi Dalamaður, með verstfirskt blóð í æðum, sem tók að arka um götur Reykjavíkur í byrjun fjórða áratugs síðustu aldar og hefja hvassar orðræður á kaffihúsum?  Og hvern mann hafði hann að geyma?  Var hjarta hans biturt?

           

Vissulega má kasta slíkum spurningum fram í hausthúmið.  En myrkrið er ekki fjarri húminu.  Það er því vissara, að hver svari fyrir sig; hafi sína eigin glætu að lýsa sér til skilnings. 

           

Í kirkjubókinni fyrir vestan var drengurinn skráður Aðalsteinn Kristmundsson.  Skírnarnafnið er í senn göfugt og hart.  En hinum unga manni hefur sýnilega ekki þótt harkan í því næg, því þegar hann tók sér sæti í höllu Braga, herti hann enn á nafninu.  Þaðan í frá hét hann Steinn Steinarr.  Hina ytri göfgi lét hann sér í léttu rúmi liggja, en harkan; hún skyldi standa fyrir sínum.

           

Ég hygg að Steinn hafi verið mjög kröfuharður maður, jafnt á sjálfan sig sem aðra.  Skáldskapur hans er meitlaður; í honum gætir hvergi flausturs.  Allt er þar hnitmiðað.  En um leið og skáldinu var tamt að beita sig aga við bókmenntaiðju sína, þá fór þar bitur maður.  Það sýna mörg verka hans og um það ber öllum þeim, sem hann þekktu saman. 

           

Reyndar er biturð Steins ekkert undrunarefni.  Þegar í bernsku mátti hann þola þau grimmu örlög, að verða niðursetningur.  Hann hlaut að vísu gott atlæti hjá þeim, sem fóstruðu hann.  En smán niðursetninga var slík, að meira að segja þeim sjálfum tókst sjaldnast, að koma orðum að henni.  Þetta mættu þeir hugleiða, sem nú hafa endurvakið hreppaflutningana, með því að senda örvasa gamalmenni landshlutanna á milli,  til að láta þau deyja drottni sínum jafnvel fjarri maka og öðrum ástvinum.

           

Steini Steinarr var ómæld þrjóska í blóð borin.  En nægði hún honum til að sigrast á grimmum örlögum bernskunnar eða fylgdi niðurlægingin honum ef til vill ævina út?  Þessu er ekki auðsvarað.  Ofan á hreppaflutningana bættist, að Steinn var aldrei heilsuhraustur og fjarri því að vera, það sem kallað er verkmaður.  Honum var því í raun um megn, að vinna fyrir sér, þótt hann reyndi það, á sínum yngri árum.  Og menntavegurinn var ekki greiður fátækum einstæðingi á fyrri hluta síðustu aldar.

           

Hvað varð þá til bjargar, þessum einstæðingi á grásteindum strætum framandi borgar?  Því svarar hann sjálfur í lokaljóði bókarinnar „Ferð án fyrirheits”.  Það heitir „Undirskrift” og hljómar svo:

 

Lesendum þessarar bókar, ef einhverjir eru,

hef ég ekkert frekar að segja í raun og veru.

Sjá, hér er ég sjálfur, og þetta er allur minn auður,

hið eina, sem ég hef að bjóða lifandi og dauður.

 

Ég veit, að þið teljið mig aldrei í ykkar hópi

og ætlið mig skringilegt sambland af fanti og glópi.

Ég er langt að kominn úr heimkynnum niðdimmrar nætur,

og niður í myrkursins djúp liggja enn mínar rætur.

 

Ég ber þess að sjálfsögðu ævilangt óbrigðult merki,

því örlög hvers manns gefa lit sinn og hljóm sinn hans verki:

Það var lítið um dýrðir og næsta naumt fyrir andann.

Mitt nafn er Steinn Steinarr, skáld.  Ég kvaðst á við fjandann.

 

Það var þrjóskan, sem hélt Steini Steinarr á floti allt hans líf.  Þess skyldi þjóð hans minnast með virðingu og líta um leið í eigin barm.

           

En jafn ágæt og þrjóskan er bágstöddum mönnum, þá dugir hún skammt í ríki andans, nema til þröngra verka.  Og því er það, að Steinn var ekki aðeins þrjóskur maður svo af bar; hann var einnig leitandi sál með ríka réttlætiskennd og djúpan skilning á mannlegri tilveru og þessu undarlega eðli hennar, sem frekar er til þess fallið, að varpa fram spurningum en svörum. 

           

Steinn Steinarr var Chaplin götunnar og Sókrates kaffihúsanna.  En hvort heldur arkað var um götur eða kaffið á Hressingarskálanum yljaði mönnum og ef til vill dulítið styrkt til bragðbætis, þá var hið orðsnjalla skáld jafnan sveipað huliðshjúpi.  Ég hef fyrr sagt frá því, í þessu spjalli mínu um Stein, hversu tvískiptur maður hann var; á skrafþingum var hann hrókur alls fagnaðar, þótt oft væri stutt í biturðina.  En í mannlegum samskiptum var einlægnin honum tömust, þegar tveir áttu í hlut.  En það breytir ekki því, að í ljóðavef hans, er einlægnin sterkasti þráðurinn.  Hirði ég ekki um, að færa rök fyrir því.

           

Vaknar nú sú spurning, hvað Steinn Steinarr hafi verið íslenskri ljóðagerð og þar með íslenskri menningu.  Skal í því sambandi gripið til sígildrar mótsagnar í ljóði hans sjálfs,  „Hin mikla gjöf”,  en lokaerindi þess hljóðar svo:

  

Það stendur af sér allra veðra gný

í annarlegri þrjózku, veilt og hálft,

með ólán sitt og afglöp forn og ný,

hinn einskisverði maður:  Lífið sjálft.

           

 

Þannig kemur Steinn mér fyrir sjónir; „hinn einskisverði maður:  Lífið sjálft.”  Maðurinn sjálfur er aðeins hjóm eða hismi utan um þann kjarna, sem líf hans er; ást hans og hatur, biturð og gleði, verk hans og iðjuleysi, leit hans, sannfæring, trú.  Og það er í þessu víðfema lífi, sem við mætumst á krossgötum, eins þótt leiðir okkar hafi í raun aldrei legið saman.  Á suma köstum við kveðju, aðra ekki, lifandi eða dauða. 

           

Það er langt síðan leiðir okkar Steins Steinarrs lágu saman á slíkum krossgötum.  Og höfum ekki orðið viðskila síðan.  Að vísu hef ég um skeið ánetjast verkum annarra skálda og listamanna í öðrum greinum.  En Steinn hefur aldrei verið mér fjarri, frá því fundum okkar bar fyrst saman.  Hvers vegna?

           

Ég get lesið ýmis skáld mér til ánægju og þroska.  En mörg ljóða Steins hafa það umfram ljóð annarra skálda, sem ég þekki, að ég fæ ekki einungis notið þeirra; þau varpa fram einhverri þeirri spurn, sem ég verð að leita svara við.  Er þetta vegna þess, að þau eru aldarspegill?  Að hluta til.  Þó er þetta enn frekar fyrir þá sök, að í þessum ljóðum Steins hljómar rödd hins sí leitandi mannsanda, með öllum hans kostum og öllum hans göllum, í allri hann stærð og í allri hans smæð.  Og þannig áfram. 

           

Nú þegar þess er minnst, að öld er liðin frá fæðingu skáldsins og hálf öld frá dauða hans, gerast þau tíðindi, að það er að renna upp fyrir þjóðinni, að hún lifir ekki lengur á sjálfsblekkingum, svo sem hún hefur lengi gert.  Það er ekki lengur „ímyndin”, sem skiptir máli, heldur myndin sjálf, maðurinn í allri sinni nekt, með birtu og skuggum.  Og ef til vill ekki úr vegi, að ljúka þessum fátæklegu vangaveltum um skáldið og manninn Stein Steinarr, með ljóði hans, „Afturhvarf”

  

Ó, græna jörð, ó mjúka, raka mold,

sem myrkur langrar nætur huldi sýn.

Ég er þitt barn, sem villtist langt úr leið,

og loksins kem ég aftur heim til þín.

 

Ég viðurkenni mína synd og sekt:

ég sveikst frá öllum skyldum heiðvirðs manns

og elti vafurloga heimsku og hjóms

um hrjóstur naktra kletta og auðnir sands.

 

Mitt fólk, mitt land, minn himinn og mitt haf!

Heim kemst að lokum allt, sem burtu fer.

Ég drúpi höfði þreyttu í þögn og bæn:

Þú ert ég sjálfur.  Fyrirgefðu mér!

    

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Sæll. Þetta er sannarlega merkisdagur. Steinn hefur yljað okkur lengi og mun gera það áfram um ókomin ár. Bestu kveðjur til ykkar hjóna.

Sigurður Sveinsson, 13.10.2008 kl. 16:53

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Til lukku með daginn í gær! Þá hefði Steinn orðið hundrað ára, ef hann hefði lifað, eins og sagt er. En ef hann hefði dáið, hvað þá?

Hann Matti Jó sagði um Stein að hann hefði verið "góður maður". Ég ætla rétt að vona að enginn fari að segja þessa vitleysu um Matta eða annað fólk hér í Vesturbænum.

Takk fyrir góða pistla um Stein, Pjetur minn. Þú hefur áreiðanlega vit á að leggja ekki lag þitt við kaffihúsaliðið hér í Reykjavík.

Þorsteinn Briem, 14.10.2008 kl. 10:16

3 Smámynd: H G

Takk fyrir skrifin!

H G, 20.10.2008 kl. 00:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband