Gaspur framkvæmdastjóra Baugs

Það er ekki hægt að gaspra niður kreppu.  Hins vegar er hægt að magna hana með ábyrgðarlausu orðagjálfri.   Baugsmenn eru bitrir þessa dagana og er það síst að undra; það er byrjað að tína dótið, sem þeir hafa sankað að sér, upp úr sandkassanum þeirra.  Og þá er gripið til allra ráða.

Nú hefur framkvæmdastjóri Baugs komið fram á sjónarsviðið og hvatt fólk til að hamstra í Bónus; þar sé yfirvofandi, að allar hillur tæmist, vegna þess, að fyrirtækið eigi ekki gjaldeyri til að greiða fyrir erlendar vörur.  Og lætur svona í veðrinu vaka, að allt sé þetta því að kenna, að Glitnir hafi verið tekinn frá Jóni Ásgreiri Jóhannessyni.

Vitanlega fær þetta ekki staðist.  Ríkið yfirtók Glitni fyrir örfáum dögum.  Vikum og mánuðum saman hefur borið á því, að ýmsar vörur hafa ekki fengist í Bónus.  Hvers sök var það?  Sannleikurinn er sá, að í nokkur ár hafa erlendir efnahagssérfræðingar varað við því, að íslensku "útrásarvíkingarnir" væru í raun brynjulausir lukkuriddarar og sverð þeirra deig að auki.  Það var því aldrei spurning hvort, heldur hvenær, Baugsveldið mundi hrynja.

Með samstilltu átaki má draga úr verstu áhrifum kreppunnar og flýta fyrir því, að hún gangi yfir.  Eina gagnið, sem Baugsmenn og þeirra sveinar geta gert þjóðinni, er að láta kyrrt standa milli höku og nefs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Calvín

Hættan er sú að útrásarpésarnir dragi okkur með sér í fallinu

Baugsfjölmiðlarnir eru notaðir óspart þessa dagana til að draga upp dökka mynd af ástandinu og jafnvel eru börnin notuð til að gefa út yfirlýsingu um Evruvæðingu!

Calvín, 3.10.2008 kl. 23:48

2 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Nú verð ég að vera bæði sammála og ósammála þér, kæri Pjetur. Baugsveldið er álíka klisja og meistari þetta og hitt í tónlist og bókmenntum. Við, sem munum eftir biðröð eftir stígvélum, látum ekki bugast þótt einhverjir gaspri um hugsanlega vöntun á tekexi. Ef okkur vantar bensín sitjum við heima og syngjum internasjónalinn og spilum undir á blokkflautu af því að við erum svo fátækir að við höfum ekki efni á að kaupa flygil.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 4.10.2008 kl. 01:17

3 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ég treysti mér ekki til að syngja internasjónalinn og spila undir á blokkflautu. Ég hef bara einn munn

Haukur Nikulásson, 4.10.2008 kl. 09:47

4 identicon

Er Guðmundur Marteinsson ekki bara framkvæmdastjóri Bónuss?

Bjarni (IP-tala skráð) 4.10.2008 kl. 16:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband