Pappakaffidrykkja í Miðbænum

Ég hef tekið eftir því á góðviðrisgöngum um Miðbæinn í sumar, að tiltekinn hópur fólks, hefur tekið upp nýja hætti varðandi kaffidrykkju.  Í stað þess að setjast inn á kaffihús og drekka þennan gæðadrykk, nú eða tylla sér við borð úti á stétt, sem nú er orðið algengt að fólk geri, þá gengur þetta fólk um og drekkur kaffi úr pappaglösum.  Og það gengur um með ákveðnum hætti; það er ábúðarfullt á svipinn og gengur hratt.  Og það talar gjarnan í farsíma, hátt og snjallt.  Og allir sem fram hjá þessu fólki ganga, fá að vita, að það sé „alveg að koma" á mjög mikilvægan fund.  Hafi bara tafist lítillega vegna anna.

Í dag sá ég konu koma akandi á jeppa vestur Vonarstræti.  Hún hafði aðra hönd á stýri en í hinni hendinni hélt hún á svona pappakaffi.  Upp við ráðhúsið stóð kyrrstæð bifreið.  Sú á jeppanum nam staðar við hliðina á bílnum og kallaði hátt, til þess, sem þar sat, að hún væri alveg að koma á „fundinn."

Flest af þessu pappadrykkjufólki þekki ég í sjón.  Þetta eru annað hvort ungir stjórnmálamenn, á svakalega brattri uppleið,  eða fólk úr Mammonsliðinu.  (Ég hef það nú á tilfinningunni, að það muni heldur svona fækka í síðarnefnda hópnum, en það er önnur saga.) 

Jæja, hvað um það, ég hef gaman af þessu og þakka fyrir leiksýninguna. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kreppumaður

Drekk mikið af pappakaffi en verð því miður að teljast til þeirra sem hvorki eru á uppleið eða á leiðinni á mikilvægan fund.  Ég geng frekar hægt og nýt kaffisins, sérstaklega þegar það fer að kólna í veðri og ég á erindi á milli staða.

Kreppumaður, 30.9.2008 kl. 16:37

2 Smámynd: Emil Guðfinnsson

Ég vill oft kalla þessa hegðun ´The Sex and the city´Syndrome þar sem elskurnar úr þeim sjónvarps þáttum vorum oft á þeyttingi með pappakaffið.

 Og auðvitað var það fyrsta sem ég gerði þegar ég flutti til einnar stórborgar var að kaupa mér pappakaffi á leið í vinnuna. Enn gafst fljótt upp á þvi þegar ég brendi á mér tunguna, og kaffið var loks orðið drykkjarhæft þegar mætt var a vinnustaðin þar sem kaffið var boðið upp á frítt.

Emil Guðfinnsson, 1.10.2008 kl. 15:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband