11.9.2008 | 21:45
11. september 1973
11. september er svartur dagur í sögu lýðræðisins. Þennan dag árið 1973 gerðu herforingjar í Chile undir forystu Pinochets byltingu gegn löglega kjörinni stjórn sósíalista undir forsæti Salvadors Alliende. Herforingjarnir voru dyggilega studdir af Bandaríkjastjórn, enda hefði valdaránið verið ómögulegt án samráðs við hana. Alleinde var myrtur af mönnum Pinochets, sem og tugir þúsunda annarra. Nákvæm tala fórnarlamba er óviss, en talið er, að þau hafi verið frá 20.000 til 40.000. Eru þá ótaldir allir þeir Chilemenn, sam sæta máttu fangelsun með viðeigandi pyntingum eða voru reknir úr landi.
Þegar Bandaríkjamenn höfðu tryggt valdarán Pinochets, hóf hann s.k. efnahagsumbætur í anda helsta ráðgjafa síns, Milton Friedmanns. Sá var um langt árabil nánast í guðatölu hjá öfgasinnuðum hægrimönnum víða um heim, þótt fáir færi honum hoffórnir nú. Goðum hættir til að falla af stalli, hvort heldur þau veifa rauðum dulum eða svörtum.
Pinochet hershöfðingi hélt völdum allt til ársins 1990 og verður saga hans ekki rakin hér. Þó má geta þess, að hann lést fyrir fáeinum misserum í hárri elli og við lítinn söknuð samlanda sinna.
Bandarísk stjórnvöld hafa löngum reynt að þvo af sér smánarblettinn frá valdaráninu í Chile. Þeim hefur þó gengið það treglega, enda hafa bandarískir sagnfræðingar, stjórnmálafræðingar og blaðamenn verið iðnir við að minna landa sína á ábyrgð þeirra á valdaráninu. Þeir vita sem er, að stjórnkerfi sem nýtt er til voðaverka á fjarlægum slóðum, getur hæglega beitt spjótum sínum að eigin þegnum. Þegar til lengdar lætur takmarkast ofbeldi ekki við landafræðina, heldur hugsunarhátt þeirra, sem fremja það.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Heill og sæll, vinur.
Þarna hefur þér láðst að afla þér réttra upplýsinga. Tölunum, sem þú nefndir, var oft fleygt fram, jafnvel "50.000 drepnir", en eru einfaldlega rangar.
segirðu, en réttar tölur eru á bilinu 2.400 til 4.200, sennilega um eða undir 3.000. Um þetta hef ég margar heimildir og á eftir að birta þær í grein. En heyrðirðu þetta kannskí í þætti á Rás 1 í dag? Þeim er trúandi til þess þar að fara með kolrangt mál um þetta, og fyrir allmörgum árum var m.a.s. Sigurður Hjartarson sagnfræðingur fenginn til að tala þar og hélt fram háu tölunum! Hann var sem betur fer illa upplýstur um sannleikann í því efni.
En það er merkilegt, hvað vinstrimenn eins og hann hafa lítt tekið við sér að leiðrétta sínar fyrri fullyrðingar. Í raun var grimmasta ríkisstjórnin í S-Ameríku á þessum árum í Argentínu, með um 3–4 sinnum fleiri drepna en í Chile (10.000 eða yfir), en trúlega vegna Allende-stjórnarinnar í síðarnefnda landinu varð Chile langtum þekktara dæmi um ógnarstjórn. Sannarlega var Pinochet-stjórnin slík, en halda ber þó réttum tölum til haga.
Með góðri kveðju,
Jón Valur Jensson, 11.9.2008 kl. 22:20
Af hverju ertu að tengja Milton Friedman við ógnarstjórn Pinochet?
Að segja að Milton Friedman hafi verið helsti ráðgjafi Pinochet er algerlega fáránlegt. Friedman veitti ráðgjöf varðandi það hvernig best væri að ná niður verðbólgu, sem var mikið vandamál í landinu. Háskóli í Chile og Chicago háskóli (skóli Friedman) höfðu átt í samstarfi um áraraðir og Friedman var fenginn til að veita ráðgjöf vegna þess að Háskólinn í Chile leitaði til Chicago háskóla um hvernig best væri að ná tökum á verðbólgunni. En hann skildi orsakir og afleiðingar verðbólgu betur en aðrir hagfræðingar. Enda fékk hann nóbelsverðlaun fyrir vinnu sína á því sviði.
Mér finnst þetta mjög ósmekklegt hjá þér.
Friedman var annarsvegar frábær vísindamaður og hinsvegar
talsmaður frelsis, ekki en ekki ánauðar.
Sigurgeir Þór Hreggviðsson, 12.9.2008 kl. 00:40
Blessaður Jón Valur.
Ég játa það glaður, að tölur um ofbeldisverk, eins og þau sem hér um ræðir, eru jafnan á reki og er lítt um það að sakast. En þar eð ég þykist vita, að þú sér trúarlega þenkjandi maður, langar mig að minnast eftirfarandi orða Krists, úr Matteusarguðspjalli: „Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér."
Ofbeldi, af hverjum sem það er framið og á hverjum sem það bitnar er ekki spurning um tölur, heldur hugarfar þess, sem beitir því og þjáningar hins, sem fyrir því verður.
Með bestu kveðju,
Pjetur Hafstein Lárusson, 12.9.2008 kl. 09:22
Sæll Pjetur
Það spurning hvort munur sé á að myrða 40.000 manns eða 15.000. Sjálfur tel ég það ekki minni glæp að fingurbrjóta og síðan myrða vinsælasta skáld Suður Ameríku Vitkor Jara á stærsta íþróttavelli Chíle. Menn sem fremja slíkan glæp hafa ekki merkilegan málstað að verja.
Hér er Viktor Jara
Rúnar Sveinbjörnsson, 12.9.2008 kl. 16:17
Lokasetning þín er rétt, Rúnar. Hins vegar er stór munur á því að myrða 40.000 manns eða 15.000 og ennþá stærri munur á því að drepa um 3.000 manns eða 40–50.000 manns, eða þannig hljóta fórnarlömb og andstæðingar að líta á málin. Leiðrétting mín á tölum Péturs fól ekki í sér neina réttlætingu á manndrápunum.
Pjetur, tölurnar voru mjög á reki á fyrstu árunum og í tíð herforingjastjórnarinnar, en þær eru það ekki lengur eða alls ekki í þeim mæli, sem þá var. En þar eð ég þykist vita, að þú sért líka trúarlega þenkjandi maður, Pjetur minn, og sækir messur í Riftúni, veit ég að þú minnist líka eftirfarandi orða Krists, úr Matteusarguðspjalli: „Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér."
Jón Valur Jensson, 12.9.2008 kl. 19:25
Steingrímur Jónsson skauzt hér fram fyrir mig með nýtt innlegg, meðan ég hripaði niður svar til hinna. Innlegg mín hér á undan fólu ekki í sér neina málsvörn fyrir Bandaríkin og verk þeirra, hvorki í Chile né annars staðar, slíkt var aldeilis utan umræðu minnar. Steingrími er frjálst að halda hverju sem er fram um þau mál hér, og hvorki fer ég út í rifrildi við hann um þau mál né ábyrgist þau orð hans holt og bolt. Þetta er einfaldlega ekki umræðuefni mitt hér.
Lokamálsliður Steingríms er honum sjálfum ekki til neinnar frægðar né sæmdarauka. Að ég leiðrétti tölur, sem voru hér margfaldlega rangar í pistli Pjeturs, réttlætir enga slíka vanstillingargusu af hálfu Steingríms þessa.
Jón Valur Jensson, 12.9.2008 kl. 19:35
Æsingasvar er þetta af þinni hálfu, Steingrímur. Ég tala ekki fyrir Guðs hönd í þessum málum né öðrum – mér hefur hvorki verið falin sú ábyrgð né myndi ég dirfast til þess sjálfur. En í varnarstríðum, m.a. seinni heimsstyrjöld, hefur reynzt nauðsynlegt, jafnvel með hliðsjón af kristnu siðferði, að beita hervaldi af mjög ólíkri stærðargráðu og með mislöngu úthaldi. En hvað kemur það herforingjabyltingunni í Chile við?
2. spurning þín er svo ruglingslega orðuð, að í hana næst engin skynsamleg meining; en getur verið, að þú hafir tekið upp spurningaháttinn í stað þess, sem hér hafði verið um rætt og einkum í stað þess að virða innlegg mín hér ofar svars, ef þú vilt við mig ræða?
Lokasetning þín sýnir vel, að þú ert illa að þér í Nýjatestamentiskristni, og ekki er hún svara verð, enda hef ég ekki boðið upp á þennan spurningaleik og sit ekki fyrir svörum hvers sem kærir sig um að kasta í mig orðum.
Jón Valur Jensson, 13.9.2008 kl. 00:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.