Ekki fleiri kubbahús við Laugaveginn, þökk fyrir

Laugavegurinn er helsta verslunargata Reykjavíkur.  Hann er lífæð borgarinnar ásamt Kvosinni.  Á góðviðrisdögum iðar hann af mannlífi og hann er meira að segja síður en svo líflaus, þótt veðurguðirnir séu í vondu skapi.  Hvers vegna skyldi þetta vera?  Hví versla ekki allir í "kringlunum"?

Því er fljótsvarað; verslun er ekki aðeins kaup og sala, hún er á sinn hátt listaverk.  Þess vegna krefst hún réttrar umgjörðar.  Sú umgjörð verður ekki sköpuð af arkitektum; hún verður til í hugarfylgsnum fólks.  Það gildir um flesta kaupmenn, verslunarfólk og viðskiptavini, að þetta fólk vill vera ákveðin stærð í viðskiptunum.  Ég man þegar frændur mínir ráku skóverslun L.G.L. við Bankastræti.  Meðal afgreiðslufólks þar var Ingólfur Ísólfsson bróðir Páls dómorganista (sagði reyndar sjálfur aðspurður um þann skyldleika, að hann væri ekki bróðir Páls, heldur væri Páll bróðir sinn).  Ingólfur var verslunarmaður af Guðs náð.  Skósalan var honum listgrein og þegar hann hafði selt skóna, pakkaði hann þeim meira að segja inn með listrænum tilþrifum.  Allir Reykvíkingar vissu, að það var upplifun, að versla við hann.  En umgjörðin utan um þessa leikþætti Ingólfs Ísólfssonar mátti ekki vera stærri.  Hann hefði orðið að krækiberi í helvíti í Kringlunni eða Smáralind.

Laugavegurinn er einmitt hin hæfilega stóra umgjörð verslunar.  Þessa umgjörð má ekki eyðileggja með ógnarkassa utan um Listaháskólann.  Það eru engin rök, að hann mundi auðga mannlífið við Laugaveg eða að að mannlíf gæti auðgað skólann.  Listaháskólinn á einfaldlega ekki heima við Laugaveginn.  Hann á að vera framlenging Miðbæjarins.  Þess vegna á að reisa honum hús í útjaðri Miðbæjarins, t.d. við Sölvhólsgötu eða vestur við Nýlendugötu.  Þannig mundi Miðbærinn stækka og eflast.  En auðvitað fengu eigendur lóðarinnar við hornið á Laugavegi og Frakkastíg ekkert fyrir sinn snúð.  Er það ef til vill það, sem málið snýst um, í augum þeirra, sem endilega vilja hafa skólann við Laugaveg?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

alveg er ég sammála þér ekki fleiri kubbahús við Laugaveg. En lausnin þarf þó ekki endilega að vera sú að eyða hundruðum milljónum króna í að halda í hundgömlul og úr sér gengin hús við Laugaveginn.

Ég var dálítið spennt fyrir því að fá listaháskólann til þess að endurlífga Laugaveginn. Stundum hefur gatan virst vera hálf dautt svæði, sérstaklega á síðustu árum þegar verslun hefur að meira eða minna leyti færst inní súpermarkaðina. Stór háskóli í nágrenni við Laugaveg getur hæglega endurlífgað götuna og fært henni það líf sem hún þarfnast og á skilið.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 12.8.2008 kl. 16:45

2 Smámynd: Sturla Snorrason

Það á að friða allan gamlabæinn, þá falla þessi hús " LÓÐIR" í verði og venjulegur verslunarrekstur hefði þá efni á að vera í bænum og húsin yrðu löguð .

Sturla Snorrason, 13.8.2008 kl. 14:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband