26.7.2008 | 14:21
Steinn Steinarr LVI
Rigning
Hófspor í vatni,
húmblátt auga,
flaxandi fax.
Og hugsun mín hvarf
í hinn heita jarðveg,
sem hálfstrokið vax.
En nafn mitt hélt áfram
á nafnlausum vegi
til næsta dags.
Þetta ljóð Steins er að finna í kaflanum Ýmis kvæði" í Kvæðasafni og greinum". Getur nokkur maður ort svona, nema hann sé einfari? Mér er það nokkuð til efs. En einfara er gjarnan að finna í fjöldanum; það er gömul saga og ný.
Óneitanlega leiðir þetta hugann að sósíalrealískum´" skáldskap, þ.e.a.s. skáldskap eða skáldskapartilraunum, sem eiga sér félagslegar og pólitískar rætur. Svo vill til, að sá sem hér skrifar er ekki alveg saklaus í þeim efnum sjálfur. Steinn Steinarr var það raunar ekki heldur. En hann óx upp úr því. Að vísu hætti hann ekki að yrkja um mannlegt samfélag, en forsendurnar urðu hans eigin, ekki þess samfélags, sem ort var um. Þar skilur á milli.
Sósíal realisminn" komst langt með, að drepa niður ljóðrænan þankagang heillar kynslóðar. Það sem kallað var skáldskapur var í raun meira í ætt við forystugreinar dagblaða eða jafnvel einhvers konar bókhald. Sagan er þeirrar náttúru, að endurtaka sig, þó í breyttri mynd sér, bókmenntasagan ekki síður en aðrir hlutar hennar. Það er því hætt við, að sósíal realisminn" eigi eftir að rísa upp úr sinni köldu gröf. Vonandi veldur hann ekki öðrum eins skaða þá og hann gerði á sínum tíma.
Á tímum sósíal realismans" áttu skáldin að vera einskonar framlenging á stjórnmálamönnum og skilyrðislaust þjónar þeirra. Sú tíð er liðin; í bili. En skáld og rithöfundar hafa eignast nýja herra að lúta. Nú er það markaðshyggjan sem ræður. Skáldsakpur skal þar af leiðandi vera auðmeltur og umfram allt í samræmi við formúlur, sem ganga greiðlega upp.
Ekkert er nýtt undir sólinni, ekki heldur sú óaran, sem hér er lýst. Steinn Steinarr átti það til, að vera nokkuð óvæginn í ritdómum. En það var þessi formúleraða vanahugsun, sem hann réðst þá gegn. Og vissulega var hún til á hans tímum. Þá var hún hins vegar í sínu afmarkaða hólfi; nú nartar hjörð henna gras um víðan völl.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.