Heimsókn til Mala

Í dag heimsótti ég Mala, kunningja minn í Reykjavík.  Hann tók hið besta á móti mér og sendi þénara sinn, Sigurð Þór Guðjónsson rithöfund, fram í eldhús að hella upp á könnuna.  Auðvitað hlýddi Sigurður því umyrðalaust, vitandi hvað til hans friðar heyrir.  Á meðan kraumaði á könnunni sýndi Mali mér það vinarhót, að setjast í kjöltu mína, hvar ég sat og beið eftir kaffinu.  Hann malaði að vísu ekki í þetta skiptið, enda er kunningskapur okkar nokkuð svo nýr af nálinni og því vissara, að fara ekki að neinu óðslega.  Mali er nefnilega köttur, en slík dýr kunna sig um fram aðrar skepnur, að manninum meðtöldum.  Er það að vonum, því kettir eru ljónsfrændur og þar með konunglegar persónur, meðan apinn er nánasti ættingi okkar mannanna.  Og sér á.

Samræður okkar Mala snérust að mestu um andleg efni.  Við vorum í flestu á sama máli.  Þó var ekki laust við, að mér þætti hann óþarflega orðvar.  En auðvitað  er hann konungborin persóna, eins og önnur kattdýr og verður því að gæta tungu sinnar.  Vegna þessa síns hátignarlega uppruna, sagðist Mali vera tilneyddur, að þiggja boð kínverskra kattastjórnvalda á ólympíuleikana í Peking.  Hann sagði að vísu, að mannréttindaástandið þar í land væri með þeim hætti, að sér væri í raun ekki ljúft að mæta þarna, nema fá eins og einn vænan viðskiptasamning að launum; svona rétt fyrir föðurlandið.  Við fórum ekki nánar út í þá sálma.

Mali bað mig fyrir kveðju til aðdáenda sinna nær og fjær. Honum eru hér með færðar bestu þakkir fyrir ánægjulegar samræður og þénara hans fyrir kaffið. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll; Pjetur !

Þakka þér; myndræna og skemmtilega lýsingu, á viðtökum þeim, hverjar þú hlaust, hjá þeim fóstrum,, skáldmæringur góður.

Með beztu kveðjum, sem ætíð /

Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 24.7.2008 kl. 21:21

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Mali er skaðræðiskvikindi sem situr um líf eiganda síns. Ég myndi fara varlega í heimsóknir á þann bæinn á næstunni.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 25.7.2008 kl. 00:06

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Eitt sinn Pjetur ákvað að fara,
til Andskotans barasta bara,
fékk þar viðtal,
fjandans það mal,
en þrumara og kaffi var þjónninn ekki að spara.

Þorsteinn Briem, 25.7.2008 kl. 14:52

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég trúi ekki orði af því sem þú segir í þetta sinnið og endurtek það sem ég sagði á bloggsíðu Sigurðar: Ég fyrirgef ekki svo glatt þeim sem ráðast á vini mína - hvort sem það eru menn eða dýr!

Aðgát skal höfð í nærveru Mala.

Lára Hanna Einarsdóttir, 25.7.2008 kl. 14:53

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mali setti upp enga smáræðis kryppu vil lestur á þessari færslu.

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.7.2008 kl. 17:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband