19.7.2008 | 19:19
Steinn Steinarr LIV
Ég var að bera saman efahyggju Steins og afstæðishyggju "póstmódernismans" í spjalli mínu í gær. Munurinn er augljós; efahyggjan verður að standa á ákveðnum grunni, afstæðishyggjan ekki. Þvert á móti þarfnast hún þess beinlínis, að hafa laust undur löppum. Þess vegna getur hún ekki leitt neitt af sér, annað en skoðanaleysi og þar með virðingarleysi fyrir því, sem gildi hefur og jafn vel aðdáun á því, sem lítils er um vert.
Efahyggjan, eins og hún birtist m.a. í verkum Steins Steinarrs, er hins vegar leit að gildum. Hún krefst festu og skilgreiningar á því, hvað sé vel gert og hvað miður. Efahyggjumaðurinn dregur allt í efa, ekki vegna þess, að hann líti niður á allt sem gert er, heldur vegna þess, að hann veit, að leitin að fullkomnunni er endalaus. Hún mun vitanlega aldrei skila þeim árangri, að fullkomnunin finnist. En svo lengi sem maðurinn leitar hennar, nálgast hann hana. Mannkynið á allar framfarir því að þakka, að menn hafa séð, að jafnvel megi bæta það, sem gott er. Það sem miður fer í heimi hér, má rekja til þess, að einstaklingar eða hópar, jafnvel heilu þjóðirnar, telja sig hafa fundið stóra sannleik." Þetta á jafnt við í andlegum efnum sem veraldlegum. Efahyggja manna á borð við Stein Steinarr er því beinlínis nauðsynleg til aukins mannlegs þroska.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Þakka þér kærlega fyrir þessi orð í belg. Einhver besta útlistun á póstmódernisma og feni hans sem ég hef séð. Þá er einnig efahyggjuspælingin góð.
kv,
Svanur Gísli Þorkelsson, 19.7.2008 kl. 23:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.