20.6.2008 | 07:34
Steinn Steinarr XLV
Okkur nútímamönnum hættir til, að fá ekki notið þess, sem við ekki skiljum, eða að minnsta kosti teljum okkur skilja, enda þótt sá skilningur sé oft í hæpnara lagi. Okkur reynist erfitt að trúa á Guð, vegna þess, að við höfum ekki rekist á hann á förnum vegi. Og listir vilja vefjast fyrir okkur, nema þær séu settar upp í formúlu, það er að segja, einskonar reiknisdæmi sálarlífsins.
Fyrr í vikunni fjallaði ég um nýja útgáfu á ástarljóðum Páls Ólafssonar. Benti ég þá meðal annars á, hvernig hin svo kallaða bókmenntastofnum skilgreinir hann sem alþýðuskáld. En hver er merking þess orðs? Sé því slegið upp í orðabók Menningarsjóðs, kemur eftirfarandi skýring í ljós: Alþýðuskáld er rithöfundur eða skáld, sem fjallar helst um efni hugstæð alþýðu eða tekur á efninu á alþýðlegan hátt. Svo mörg voru þau orð.
En hver er merking þeirra? Mér vitanlega er tæpast hægt,að raða hugðarefnum fólks niður á stéttir. Er ástin hugstæðari kerfisfræðingum en afgreiðslufólki í skóverslunum? Tæpast. Og eru heimspekilegir þankar bundnir við heimspekinema og kennara þeirra? Ég held varla.
Skilgreiningarglaðir menn, sem meðal annars tala um alþýðuskáld, ættu að velta fyrir sér ljóðagerð og raunar einnig öðrum skrifum Steins Steinarrs. Segjum til dæmis, að ljóðið Hjálpræðisherinn biður fyrir þeim synduga manni Jóni Sigurðssyni fyrrverandi kadett, sé ort við alþýðuhæfi. Er Steinn þar með skilgreindur sem alþýðuskáld? Ekki vantar, að háðið í ljóðinu liggi ljóst fyrir hverjum sem vera skal. En hvað þá um Tímann og vatnið? Það ljóð er einungis hægt að skynja; ekki skilja. Er Steinn Steinarr þá alþýðuskáld, mínus Tíminn og vatnið og önnur þau ljóð hans, sem fremur eru ætluð lesendum til skynjunar en skilnings?
Vissulega getur verið bæði skemmtilegt og fróðlegt, að setja skáldskap í víðara samhengi. En það breytir ekki því, að hver nýtur lyktar með eigin nefi.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 10:33 | Facebook
Athugasemdir
Sæll og bless gott að sjá að þú ert sprækur og hef gaman að lesa þig lifðu heill þinn VINUR Einar Braga.
Einar B Bragason , 20.6.2008 kl. 16:15
Nú þá hlýt ég að vera alþýðuskáld, (sé litið framhjá leirburðinum) En hvað ef mig langar að heita Aðalheiður fjallaskáld? Ég hélt að gæti aldrei orðið nema ég flyttist til fjalla, en þarf ég þá ekki annað en að yrkja um fjöll í tíma og ótíma og nafnbótin er mín?
Aðalheiður Ámundadóttir, 20.6.2008 kl. 20:46
Athyglisvert..... takk E.
Edda (IP-tala skráð) 21.6.2008 kl. 00:47
sendu mér aura strax eða ég kem heim! hahaha love you 3 EBB
Einar B Bragason , 22.6.2008 kl. 02:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.