17.6.2008 | 11:35
Páll Ólafsson
Enda þótt allir vildu Lilju kveðið hafa og Íslendingar séu enn bornir til grafar undir hinu eina blómstri séra Hallgríms Péturssonar, er mér til efs, að íslensk ljóðagerð hafi risið hærra en á tímabilinu frá fjórða áratug 19. aldar og fram yfir miðja 20. öld. Þetta er öld hinna s.k. þjóðskálda, að viðbættri formbyltingunni í kjölfar síðari heimsstyrjaldar, sem strangt til tekið má raunar rekja lengra aftur. En það er önnur saga.
Rétt eins og 20. öldin var öld mikils umróts í sögu og bókmenntum Íslendinga, þá var 19. öldin tími stórbrotinnar vakningar. Sú vakning birtist ekki hvað síst í ljóðagerðinni, enda var hún samofin örlögum þjóðarinnar á þeim tímum, draumum hennar og vonum. Bjarni Thorarensen og þó enn frekar Jónas Hallgrímsson slóu þann streng, sem varð upphaf mikillar hljómkviðu. Og ýmsir fylgdu á eftir; Grímur Thomsen, Bólu-Hjálmar, séra Matthías Jochumsson, Benedikt Gröndal og síðar skáld á borð við Stephan G. Stephansson, Hannnes Hafstein og Einar Benediktsson. Enn þann dag í dag eru ljóð þessara skálda mörgum töm, enda þótt tímarnir hafi breyst og mennirnir með. Óneitanlega lifa sum þeirra m.a. vegna laga, sem tónsmiðir hafa gert við þau, meðan önnur lifa sjálfstæðu lífi.
Eitt þeirra skálda, sem hér koma við sögu er Páll Ólafsson. Enda þótt hann hafi verið höfuðskáld síns fjórðungs, Austfjarða um sína tíð og allar götur síðan, þykir mér, sem hann hafi aldrei hlotið þann sess í bókmenntasögunni, sem honum ber. Hin hátimbraða bókmenntastofnun skilgreinir hann sem alþýðuskáld, en það þykir sem kunnug er ekki fínn stimpill þar á bæ. En hvað sem því líður, þá öðluðust ljóð Páls Ólafssonar snemma sess í hjörtum þjóðarinnar. Var það síst að undra, enda maðurinn snjallyrt skáld, gamansamur vel og hittinn á þá strengi, er hitta mannleg hjörtu.
Ástarsamband Páls og síðari konu hans, Ragnhildar Björnsdóttur hófst meðan hann var enn kvæntur fyrri konu sinni, Þórunni Pálsdóttur. Ragnhildur varð skáldinu ljóðadís og voru mörg ástarljóða hans til hennar með þeim hætti, að ekki þótti hæfa, að gefa þau út, meðan enn gætti viktoríanskrar siðavendni 19. aldar. Nokkur þessara ljóða birtust þó í Ljóðmælum I og II, sem hálfbróðir Páls, Jón Ólafsson ritstjóri gaf út á árunum 1899 til 1900. Árið 1971 kom svo út bókin Fundin ljóð í umsjón Kristjáns Karlssonar og er þar að finna all mörg munúðarljóð Páls, sem ekki höfðu áður birst. En nú hefur verið bætt um betur. Bókaútgáfan Salka hefur gefið út bókina Ég skal kveða um eina þig alla mína daga. Þórarinn Hjartarson annaðist um útgáfuna og ritar formála. Þarna er að finna munúðarfyllstu ljóð Páls og hafa 95 lausavísur og ljóð, sem þarna birtast, ekki áður komið fyrir almenningssjónir. Þó hafa nokkur þessara ljóða verið flutt á hljómplötunni Söngur riddarans, þar sem Tjarnarkvartettinn syngur lög við ljóð Páls Ólafssonar, en Þórarinn er einmitt einn söngvara hans.
Vonandi verður þessi útgáfa á ástarljóðum Páls til þess, að hann öðlist þann sess, sem hann verðskuldar í bókmenntasögu þjóðarinnar.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Jón Helgason á alltaf minn hug og hjarta.
Jón Steinar Ragnarsson, 17.6.2008 kl. 18:21
Eitt vil ég leiðrétta, Þórarinn var aldrei í Tjarnarkvartettinum heldur er hann bróðir þeirra bræðra sem þar voru. Diskinn Söngvar riddarans gerði hann með Ragnheiði Ólafsdóttur. Ég mæli með honum. Mjög.
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 18.6.2008 kl. 08:55
Þarna hljóp ég á mig. Þakka kærlega þarfa ábendingu.
Pjetur Hafstein Lárusson, 18.6.2008 kl. 10:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.