Steinn Steinarr XLI

 

Í ævisögu Steins eftir Gylfa Gröndal, seinna bindi, bls. 60 stendur eftirfarandi, þar sem fjallað er um sænsk skáld á þeim tíma, sem Hannes Sigfússon og Steinn Steinarr eru í Svíþjóð eftir seinna stríð: „Vinsælastur allra var hins vegar Nils Ferlin (1898—1961) en hann var á margan hátt líkur Steini Steinarr sem skáld.  Kvæði hans eru undarlegt sambland af viðkvæmni, skopi og kaldhæðni.”  Og fylgir fleira á eftir, sem ekki verður þulið hér.

 

Að sumu leyti get ég tekið undir með Gylfa, en þó ekki alfarið.  Vissulega gætir í ljóðum beggja þessara skálda,  „samblands af viðkvæmni, skopi og kaldhæðni.”  Undarlegt þykir mér það þó ekki, líkt og Gylfa, þegar hann fjallar um Ferlin.  Þvert á móti; þetta er rökrétt og í fullu samræmi við líf þeirra Steins og Ferlins.  En kaldhæðni þeirra er af ólíkum toga og mér finnst hún eiga sér dýpri rætur í ljóðum Steins en Nils Ferlins.  Og skyldi engan undra.  Fjölskylda Ferlins átti að vísu við fjárhagslega erfiðleika að etja, eftir að hann missti föður sinn, þá á unglingsaldri.  En það sem af því leiddi, voru hreinir smámunir, miðað við það sem Steinn mátti þola í þeim efnum.  Aðskilnaður frá foreldrum og systkinum, og það fyrir sakir fátæktar, veldur slíku sári í sálarlífi hvers barns, að hæpið er að nokkru sinni grói um heilt, eins þótt viðkomandi barn lendi hjá góðu fólki, eins og Steinn Steinarr vissulega gerði.  Það er einmitt þangað, sem ég hygg, að rekja megi kaldhæðnina, sem svo oft gætir í ljóðum Steins og lausamáli.  Og í samræðum var hann beinlínis frægur fyrir kaldhömruð tilsvör og athugasemdir, sem undan sveið.  Þannig tala þeir einir, sem hafa djúp sár að dylja.  En dæmi hver fyrir sig; nokkur ljóða Ferlins eru til í frábærum þýðingum Magnúsar Ásgeirssonar.

 

En fyrst minnst er á Nils Ferlin langar mig til að segja smá sögu í sambandi við hann.  Fyrir mörgum árum bjó ég í Stokkhólmi.  Eitt sumarið, sem ég bjó þar, starfaði ég hjá garðyrkjudeild borgarinnar í hverfi, sem heitir Spånga.  Vinnufélagar mínir voru ekki beinlínis bókmenntalega þenkjandi  og allt í lagi með það.  En hvað um það.  Dag einn, þegar lítið var að gera, fórum við á flakk í annað hverfi, Öster Malm.  Ólíkt Spånga, er það svo kallað „fínt hverfi.”  Segir ekki af ferðum okkar, fyrr en við komum í kirkjugarð, þarna í þessu „fína” hverfi.  Heyri ég þá allt í einu, að versktjórinn rekur upp ramakvein og fylgdu því ósvikin blótsyrði, enda maðurinn borinn og barnfæddur í því ágæta verkamannahverfi Söder Malm, eða Söder, eins og það kallast í daglegu tali, en þar voru blótsyrði hér á árum áður notuð eins og sumir nota mola með  kaffi.  Þessum mínum ágæta verkstjóra þótti í það minnsta ótækt, að hefja nokkra setningu án blótyrðis. 

 

En hvað skyldi hafa valdið blótsyrðaflaumnum í þetta sinn?  Jú, hann hafði þá gengið fram á gröf Nils Ferlins.  „Hvernig í djöfulsins, andskotans helvíti hefur þeim dottið í hug, að jarða Nils Ferlin hér í þessu líka sótsvarta helvítis snobbhverfi, en ekki í Gömlu Klöru (bohemahverfinu, þar sem Ferlin var á heimavelli.)

 

Þessi verkstjóri var ekkert fyrir bókina, frekar en aðrir vinnufélagar mínir þetta sumarið.  Ég efast stórlega um, að hann hafi lesið eitt einasta ljóð eftir Nils Ferlin, nema þá í barnaskóla, skyldunnar vegna.  Hitt er svo annað mál, að auðvitað hefur hann heyrt lög flutt við ljóð skáldsins, enda ljóð Ferlins vinsælt viðfangsefni „kompónista” af öllum gerðum og sortum.  En það er aukaatriði.  Aðalatriðið er það, að skáldið skyldi hvíla innan um sína líka.  Það þarf ekki endilega mikla þekkingu, til að eiga sér sína eigin menningu, þótt sérstæð sé.

  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband