Steinn Steinarr XL

Því miður komst ég ekki á tónleikana í Gamla bíói í gærkvöldi, eins og fyrirhugað var, en þar voru flutt lög við ljóð Steins.   En ég hef mér það til afsökunar, að jarðskjáflti reið yfir Suðurland, en ég bý í Hveragerði og því í nógu að snúast.   Aftur á móti fór dóttir mín með vinkonu sinni og líkaði þeim vel. 

Willy Brant kansalari Vestur-Þýskalands hér á árum áður, lét eitt sinn hafa það eftir sér, að sá maður, sem ekki væri blóðrauður bolsi á sínum yngri árum, væri illa innrættur, aftur á móti væru vitsmunir hans ekki alveg sem skyldi, ef hann væri ekki farinn að hægja á róttækninni á miðjum aldri.  Þetta er kenning út af fyrir sig og skal ekki rædd hér.  Hins vegar er það athyglisvert, að enn þann dag í dag, hálfri öld eftir dauða sinn, höfðar Steinn Steinarr mest til ungs fólks.  Hvers vegna?  Ef til vill verður þeirri spurningu aldrei svarað.  En grunur minn er sá, að efahyggja Steins og skilyrðislaus kröfuharka hans í eigin garð, ráði hér nokkru um.

Í þeim ljóðum Steins, sem ekki eru beinlínis ort til gamans, leitar hann dýpri sanninda mannlegrar tilveru og kemur víða við í þeirri leit.  Ljóðið "Hin mikla gjöf" úr bókinni "Ferð án fyrirheits", 1942, er gott dæmi þessa:

 

Hin mikla gjöf, sem mér af náð er veitt

og mannleg ránshönd seint fær komist að,

er vitund þess að verða aldrei neitt.

Mín vinnulaun og sigurgleði er það.

 

Margt getur skeð.  Og nú er heimsstríð háð,

og hönd hvers manns er kreppt um stál og blý.

En eitt er til, sem ei með vopni er náð,

þótt allra landa herir sæki að því.

 

Það stendur af sér allra veðra gný

í annarlegri þrjózku, veilt og hált,

með ólán sitt og afglöp forn og ný,

hinn einskirverði maður:  Lífið sjálft.

 

Boðskapur þessa ljóðs er í senn sannur og skilyrðislaus.  Hann er svo sannur, að allir þeir, sem varðveita barnið í hjarta sínu geta gert boðskap þess að sínum.  Aðeins þeir, sem gangast upp í því að fullorðnast, eins og það er kallað, komast hjá því, að skilja ljóðið.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Tónleikarnir voru frábærir, alveg magnaðir. Miklir listamenn þarna á ferð og Jón "Góði" Ólafsson á hrós skilið fyrir framtakið. Það er skylda að eignast diskinn hans með lögum við ljóð Steins, diskurinn hefur rúllað stanslaust hjá mér frá því á föstudagskvöld og þar leynast mörg gullkorn. En af því þú slærð hér fram ljóðinu "Hin mikla gjöf" þá bendi ég þér á lag Bergþóru Árnadóttur við þetta fallega ljóð, þar er sannkallaður gullmoli á ferðinni.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 4.6.2008 kl. 00:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband