16.5.2008 | 14:28
Steinn Steinarr XXXV
Menn eignast sjaldnast vini á kaffihúsum, ef til vill kunningja; jafnvel aðdáendur eða goð, viðhlæjendur, hugsanlega samsærisbræður, þegar níða skal skóinn af einhverjum, sem fjarri er eða hefja glóp til skýjanna. En sem sagt, vináttuböndum bindast menn tæpast á kaffihúsum, frekar en skip frá ólíkum slóðum, sem mætast í framandi höfn.
Steinn Steinarr var kaffihúsamaður. Á þeim slóðum átti hann sína kunningja og aðdáendur. Og einnig fórnarlömb, þegar látið var svíða undan meinlegum athugasemdum. En mér er til efs, að hann hafi verið vinmargur maður. Fjöldinn dáði ekki skáldskap hans, meðan hann lifði; síst af öllu fólk af hans kynslóð. Og þó svo hefði verið, þá eru vinir eitt, aðdáendur annað. Það var helst, að yngra fólkið hefði mætur á þessu skáldi, sem batt í ljóð hugsun, sem tæpast var þekkt hér norður á hjara veraldar:
Að veruleikans stund og stað
er stefnt við hinztu skil,
því ekkert er til nema aðeins það,
sem ekki er til.
Á þessu erindi endar ljóðið Andi hins liðna," sem birtist í Ferð án fyrirheits," 1942. Tæpast er hægt, að ætlast til þess, að þjóð, sem kynslóðum saman hafði nært sál sína á náttúrulýrik og þjóðernisstefnu í bland við rómantíska upphafningu, eins þótt annað og hvassara væri ort í landinu á sama tíma, hafi dáð þann er orti, eins og fram kemur í erindinu hér að framan.
Nú jæja, Steinn var sem sagt kaffihúsamaður. Síðustu æviárin orti hann ekki, að heitið gæti, helst að hann setti saman vísur, sér til dægrastyttingar. Enda þótt hann væri ekki dáður sem skáld, nema af ungum skáldum og öðrum sveimhugum, þá þótti hann þó orðinn fínn félagsskapur", hjá þeim, sem þurftu að gjalda návist slíkra manna í gulli, eða víni, nákvæmninnar vegna. Og hann var víst ekkert að stugga við nýríkum lögfræðingum og heildsölum, meðan þeir tóku sér hlé frá amstri dagsins og settust að sumbli. Þarna var um að ræða gagnkvæmt, þegjandi samkomulag; þjónar Mammons skenktu í glösin, en skáldið veitti þeim nærveru sína, af náð sinni og þorsta.
Hvernig skyldi það nú aftur hljóma, ljóðið L'homme statue?" Jú, það er víst svona:
Ég stóð á miðju torgi
ég var tákn mín sjálfs
og fólkið starði og starði.
Það þokaði sér nær mér
og þekkti mig til hálfs,
svo fór það fyrr en varði.
Mitt leyndarmál er auður,
sem ég lét því ekki í té:
Ég er lifandi, og dauður.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 14:42 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.