10.5.2008 | 17:05
SteinnSteinarr XXXIV
10 mai. Í dag eru 68 ár liðin frá því Bretar hernámu Ísland. Ekki er ætlunin að fjalla um hernámið hér, eða hernámsárin, aðeins minnast lítillega á skrif Steins, sem tengjast stríðsárunum hér heima og víðar.
Stundum vill gleymast, að Steinn Steinarr var ekki aðeins ljóðskáld; í fórum hans er einnig að finna óbundið mál, þar á meðal þrjár merkilegar lýsingar hans á bæjarbragnum í henni Reykjavík á hernámsárunum. Þær birtust í Helgarblaðinu haustið 1940; Haustharmar 30. september, It´s a long way, 7. október og Sjö gegn Þebu 14. sama mánaðar. Allar þessar greinar eru í Kvæðasafni og greinum. Það verður enginn svikinn af lestri þeirra.
Þau eru ekki mörg, ljóðin, sem Steinn orti um stríðið eða í tengslum við það. Flest birtust þau í Ferð án fyrirheits 1942; Hugsað til Noregs, Minnismerki óþekkta hermannsins, Imperium Britannicum og Nýtt kvæði um stríðið. Síðar kom svo kvæðið Mr. Churchill. Þá má nefna ljóðið Hugleiðingar um nýja heimsstyrjöld, en það birtist í Spor í sandi. Háðið og kaldhæðnin sjaldan langt undan, án þess dregið sé úr alvöru málsins.
Í fyrr nefndum greinum Steins frá haustinu 1940 er eins og þetta mikla skáld slitinna skósóla á götum Reykjavíkur sé á vissan hátt orðinn gestur á framandi slóðum, enda þótt hann reyni sem heimamaður, að halda sínu striki. Það er eins og ýmislegt beri honum fyrir sjónir og til eyrna, sem áður hefði þótt í ólíklegra lagi. Greinin Sjö gegn Þebu endar svo:
Ég gekk fram hjá mörgum gluggum og horfði á auglýsingaspjöld, sem eru höfð þar til þess að græða á stríðinu. Það eru meiri lifandis ósköpin, sem allir geta þénað á þessu stríði. Ég þekki vinnukonu suður í Hafnarfirði, sem hefur fjögur hundruð og eina krónu á mánuði, fyrir utan allt hitt, sem enginn veit um. Fyrir nokkrum dögum var ég sjálfur nærri því búinn að græða tvær krónur á því að vita, hvar Þórsgata er.
Svo mörg voru þau orð. Ég er ekki frá því, að þjóðin sé enn á rölti um Skólavörðuholtið, í von um, að geta grætt lítilræði, á því að vita, hvar Þórsgata er.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.