Steinn Steinarr XXXIII

Gott ljóð er eins og eðalvín; það þarfnast ekki skýringa, aðeins þyrstra vara.  En rétt eins og menn geta gert sér það til gamans, að kynna sér uppruna góðs víns, þá spillir það ekki, að þekkja bakgrunn ljóða.  Því er þessa getið hér, að fyrir nokkru fjallaði ég um ljóð Steins, Til minningar um misheppnaðan tónsnilling, þar sem hann minnist vinar síns Jóns Pálssonar frá Hlíð.  Annað erindi þess ljóðs hljóðar svo:

 

Oss vantaði ekki viljann, þótt verkið reyndist lakt.

Vér létum Tarantella,

Nocturne, La Campanella.

Svo gall við hæðnishlátur:

Hvað hefði Friedman sagt?

 

Ég verð að játa, að ég hef aldrei velt því sérstaklega fyrir mér, hver hann var, þessi Friedman, sem þarna er nefndur.  En svo gerist það, eftir að ég fjallaði um ljóð Steins um Jón Pálsson frá Hlíð, að ég fæ tölvupíst frá Pétri Knútssyni, lektor í ensku við Háskóla Íslands, þar sem hann er að velta því fyrir sér, hver hann hafi verið, þessi Friedman, sem Steinn nefnir í ljóðinu.  Upphófust nú þó nokkrar  vangaveltur.  Um tíma leiddu þær okkur á slóðir Bellmans, en hann orti m.a. um vin sinn Friedman, sem líkt og Jón frá Hlíð var tónlistamaður, en dulítið á skjön við hinn eina sanna tón, hvar sem hann er að finna.

Nú jæja, í samræðum nafna míns við félaga hans í Hugvísindadeild kom í ljós, að tvisvar á fjórða áratug síðustu aldar, 1935 og 1938, kom  hingað til lands pólskur píanóleikari að nafni Iganz Friedman (1882 til 1948) og hélt tónleika í Reykjavík.  Hann þótti með snjallari Chopin túlkendum.  Vafalaust hefur þessi maður borist í tal á kaffihúsum borgarinnar, en Steinn Steinarr var sem kunnugt er, þaulsetumaður á slíkum stöðum.  Já, og má raunar merkilegt heita, hafi þennan margrómaða píanósnilling ekki borið á góma í Unuhúsi, þar sem Steinn tæmdi margan kaffibollann um dagana.  Því skal það haft fyrir satt, að nafni minn Knútsson hafi, í félagi við sína kumpána, leyst gátuna um það, hver hann var, Friedman sé, er Steinn Steinarr nefnir í fyrrnefndu ljóði um Jón Pálsson frá Hlíð. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband