3.5.2008 | 20:17
Steinn Steinarr XXXII
Eins og lesendur geta séð, svaraði Þorsteinn Sverrisson spjalli mínu í gær. Þá birti ég ljóð Steins Það vex eitt blóm fyrir vestan", til marks um fegurð sumra ljóða hans. Ekki mótmælti Þorsteinn því vali, en benti þó á ljóðið Hvíld", sem birtist í Spor í sandi" árið 1940, því til sannindamerkis, að víða glóir gullið í ljóðum Steins. Ég tek undir með Þorsteini, Hvíld" er fagurt ljóð. Því skal það birt hér, fyrir þá, sem ekki hafa ljóð skáldsins undir höndum.
Hvíld
Dúnmjúkum höndum strauk kulið um krónu og ax,
og kvöldið stóð álengdar hikandi feimið og beið.
Að baki okkar týndist í mistrið hin langfarna leið,
eins og léttstigin barnsspor í rökkur hins hnígandi dags.
Og við settumst við veginn, tveir ferðlúnir framandi menn,
eins og fuglar, sem þöndu sinn væng yfir úthöfin breið.
Hve gott er að hvíla sig rótt, eins og lokið sé leið,
þótt langur og eilífur gangur bíði manns enn.
Ég sé þetta ljóð fyrir mér, sem sambland málverks og tónverks, í heitum litum og dimmum tónum. Listgreinar verða ekki aðskildar, frekar en moldin og grasið.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir Pjetur. Svona getur maður haft áhrif á blogginu Ég hafði einmitt líka séð fyrir mér málverkið. Mér finnst þetta eiginlega vera dæmi um ljóð sem hefur allt. Fullkominn bragarhátt, snjallar líkingar, fallegar persónugervingar, hugljúfan boðskap en síðast en ekki síst er það hlaðið þessum galdri góðra ljóða sem maður bara skynjar en getur ekki útskýrt til fulls.
Þorsteinn Sverrisson, 3.5.2008 kl. 21:12
Þetta ljóð er eins og nokkur fleiri af ljóðum Steins;kraftaverk að fegurð.
Svona yrkir enginn venjulegur, mennskur maður.
Árni Gunnarsson, 4.5.2008 kl. 18:47
Sammála Árna Gnnarssyni, en einmitt vegna þess að Steinn Steinarr var enginn venjulegur, mennskur maður, er ekki nokkur leið að gera upp á milli ljóðanna hans! Þau eru öll svo undursamleg, hvert á sinn hátt.
Ingibjörg Hinriksdóttir, 4.5.2008 kl. 23:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.