2.5.2008 | 16:55
Steinn Steinarr XXXI
Það er þetta með fegurð ljóða; ætli fari ekki best á því, að telja hana til álitamála, rétt eins og höfgi víns eða blæbrigði lita og tóna. En það breytir ekki því, að það ljóða Steins, sem mér þykir fegurst, ásamt Tímanum og vatninu" er Það vex eitt blóm fyrir vestan", sem birtist í Ferð án fyrirheits"1942. Væri nú fróðlegt að vita, hvort ekki eru einhverjir á sama máli.
Það vex eitt blóm fyrir vestan
Það vex eitt blóm fyrir vestan,
og vornóttin mild og góð
kemur á ljósum klæðum
og kveður því vögguljóð.
Ég ann þessu eina blómi,
sem aldrei ég fékk að sjá.
Og þangað horfir minn hugur
í hljóðri og einmana þrá.
Og því geng ég fár og fölur
með framandi jörð við il.
Það vex eitt blóm fyrir vestan
og veit ekki, að ég er til.
Þess má til gamans geta, að á mínum yngri árum, heyrði ég fólk gera því skóna, að ljóð þetta væri ort, vegna barns, sem Steinn hefði átt í meinum, vestur á fjörðum. Það er fráleit tilgáta, komin frá jarðbundnu fólki, sem heldur, að ekki sé hægt að yrkja um annað en það, sem er eða hefur verið í raunheimi. Fjölmörg þeirra bestu ljóða, sem ort hafa verið, eiga sér enga stoð í svo veraldlegum leiðindum. Ef enginn heimur væri til, nema sá, sem á verður þreifað, væri heldur ekki til skáldskapur, né aðrar listir og þar af leiðandi ekki tilfinningar. Líf í slíkum heimi væri óbærilegt og það tæki því ekki, að færa það til bókar, nema þá hjá skattinum.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:57 | Facebook
Athugasemdir
Þau eru svo mörg ljóðin hans Steins sem eru meðal fallegustu ljóða ort á íslenska tungu. Það vex eitt blóm fyrir vestan er örugglega eitt af þeim ljóðum. Ég tek undir með þér varðandi Tímann og vatnið, en vil ekki gera upp á milli annarra vina minna, ljóða Steins Steinarrs.
Ingibjörg Hinriksdóttir, 2.5.2008 kl. 17:12
Fékkstu veggspjald inn um lúguna hjá þér í dag um Bitruvirkjun, Pjetur? Mér þætti vænt um að vita hvort það hefur skilað sér. Þú hefur netfangið mitt, ég sendi þér póst um daginn.
Bestu kveðjur,
Lára Hanna Einarsdóttir, 2.5.2008 kl. 22:47
Jú þetta er ein af perlunum hans. Tvímælalaust á meðal þeirra bestu þó erfitt sé að gera upp á milli. Eitt ljóð Steins sem hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér heitir Hvíld: Dúnmjúkum höndum strauk kulið um krónu og ax, o.s.frv.
Takk fyrir þessa pistla.
Þorsteinn Sverrisson, 3.5.2008 kl. 15:40
Kærar þakkir fyrir þessa pistlaröð um þjóðskáldið Aðalstein Kristmundsson. Mörg okkar ala þá von í brjósti að þú gefir þá út á bók þegar þú metur það svo að þú hafir tæmt viðfangsefnið.
Ellismellur (IP-tala skráð) 3.5.2008 kl. 20:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.