26.4.2008 | 15:27
Steinn Steinarr XXX
Í spjalli mínu um Stein Steinarr, númer XXVII, föstudaginn 18. þ.m. fjallaði ég um þátttöku hans í því að skera niður hakakrossfánann við bústað vararæðismanns Þjóðverja á Siglufirði, þann 6. ágúst 1933. Vitnaði ég þar í ágæta ritgerð Sigfúsar Daðasonar um Stein, Maðurinn og skáldið Steinn Steinarr, sem birtist í greinasafni Sigfúsar, Ritgerðir og pistlar, útgefandi Forlagið árið 2000. Eins og fram kemur, bæði í grein Sigfúsar og spjalli mínu, hét sá Þóroddur Guðmundsson, sem fór fyrir þeim vaska flokki ungra manna, sem skar Hitlers-flaggið niður. Mér varð það hins vegar á, án tilefnis úr grein Sigfúsar, að draga þá ályktun, að umræddur Þóroddur Guðmundsson, hafi verið Þóroddur Guðmundsson frá Sandi.
Nú hefur ágætur maður og fróður, bent mér á, að hér er ekki rétt með farið. Þóroddur Guðmunds-son, sá sem hér um ræðir, var verkalýðsleiðtogi á Siglufirði, fæddur 21. júlí 1903, látinn 3. október 1970. Hann sat um tíma á alþingi. Um leið og þakka þessa ábendingu, biðst ég afsökunar á þessum leiðu mistökum mínum. Eins og mér var bent á, kemur hið sanna vel í ljós í ævisögu Steins eftir Gylfa Gröndal. Þætti mér vænt um, ef lesendur brigðust skjótt við og létu mig vita, fari ég oftar með rangt mál.
En fyrst þátttaka Steins í fánamálinu á Siglufirði er til umræðu, er vert að geta þess, að hann batt ekki lengi trúss sitt við kommúnismann. Dvöl hans í Kommúnistaflokki Íslands stóð aðeins í u.þ.b. tvö ár, eins og áður hefur komið fram. Steinn Steinarr var skilyrðislaus hatursmaður alls valds; mátti þá einu gilda, hvort það veifaði hamri og sigð eða hakakrossi. Í þessu sambandi er vert að lesa viðtal Helga Sæmundssonar, sem birtist í Alþýðublaðinu 19. september 1956, en þá um sumarið hafði Steinn farið fræga ferð til Sovétríkajanna ásamt fleiri listamönnum. Einnig má benda á grein Steins í sama blaði 25. nóvember 1956, þar sem skáldið veitist harkalega að Sovétríkjunum fyrir innrásina í Ungverjaland þá um haustið. Og Steinn lét ekki þar staðar numið; þann 20 júlí 1957 lætur hann Halldór Laxness fá það óþvegið í Alþýðublaðinu, fyrir þátttöku hans í svokölluðu 6. heimsmóti æskunnar. Öll þessi ritverk er að finna í heildarsafni Steins, Kvæðasafni og greinum.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.