Málverkasýning sem vert er að skoða

Það er dulítið ævintýri í allri sannri list.  Nei, ég ætla mér ekki þá dul, að setja fram formúlu um það, hvað sé sönn list og hvað ekki.  Ég segi bara eins og Stefán Hörður sagði forðum tíð, þegar hann var spurður, hvað væri ljóð; “ég veit það ekki, en ég þekki það, þegar ég sé það”.  Svo mörg voru þau orð.  

 

 

Húsið að Sætúni 8 lætur ekki mikið yfir sér.  Þarna var áður kaffibræðsla O. Johnson og Kaaber.  Það var á þeim tímum, þegar þjóðin sameinaðist um kaffið, eins og allt annað, sem hún lét ofan í sig.  Mig minnir, að kaffitegundirnar í landinu hafi verið þrjár.  Nú skipta þær tugum, ef ekki hundruðum.  Guð má vita, hvert allt þetta kaffiþamb leiðir.  

 

 

En þótt Guð einn viti allt um kaffiþamb þjóðarinnar, en ég ekki neitt, þá er ég nokkuð fróður um hitt, hvað nú er að gerast í gömlu kaffibræðslunni þeirra O. Johnson og Kabber.  Þar fer þessa dagana fram sýning Einars Hákonarsonar, sem forðum tíð var Reykvíkingur inn að beini, en er nú orðinn Hólmvíkingur og fer ekki suður, nema sem hver annar strandhöggsmaður.  Og nú hefur skip hans sem sagt borið að landi við Sætúnið og hann slegið upp sýningu þarna í kaffibræðslunni.  

 

 

Sumir menn eru listmálarar og ágætir sem slíkir, en ekkert umfram það.  Einar Hákonarson er sagnamaður, sem skrifar á striga.  Ólíkum saman að jafna, en svona var Alfreð Flóki.  Já, og Kjarval og Mikines, en verk hans voru nýlega sýnd á Kjarvalsstöðum.    

 

 

Strigasögurnar hans Einars eru með ýmsum hætti sagðar.  Sumar eru beinskeyttar og leyna engu.  Ef til vill svolítið stórkarlalegar.  Þær hafna gjarnan á stórum flötum og eru svolítið glannalegar, sumar hverjar.  Aðrar láta lítið fyrir sér fara, eru í raun ekki sögur, heldur ljóð.  Þessar myndir taka oft ekki mikið rými á vegg.  En einhvern veginn þekja þær drjúga spildu í hugskoti mínu.  Litirnir í þessum myndum eru hófstilltir, en þó fastir fyrir, enda komnir beint frá þeirri náttúru, sem allt er af sprottið.  

 

 

Þá er að geta einar myndar, nokkuð stórrar að flatarmáli, en ólíkri flestu af því, sem ég hef séð, ekki aðeins frá hendi Einars Hákonarsonar, heldur yfirleitt.  “Morgunn” nefnist þessi mynd.  O já, víst lýsir þar af rísandi degi.  En sól þess morguns skín hvorki yfir Hólmavík né Ölfusið.  Nei, þar rís morgunn hins fyrsta dags; sköpunin sjálf!  Þessi mynd á hvergi heima, nema sem altaristafla, enda er hún máluð við fótskör Skaparans, þar sem öll einlæg list fæðist til lífs.

Svona í lokin skal þess getið, að Einar tók upp á því fyrir nokkrum árum, að mála mynd af Steini Steinarr.  Nú hefur hann látið gera eftriprentun, með kúnstum nýjustu tækni, af þessu málverki og er hún til sýnis og sölu þarna í kaffibræðslunni.     

“Og tíminn er eins og mynd, 

sem er máluð af vatninu 

og mér til hálfs.”     

segir skáldið.   

Þannig er nú það.  En ég er ekki frá því, að menn ættu að sjá þessa sýningu Einars, í það minnsta þeir, sem áhuga hafa á, að lyfta sálinni upp úr grámósku líðandi stundar.  En þá er vissara að hafa hraðar hendur; sýðasti sýningardagur er, að fróðra manna sögn, næstkomandi sunnudagur. 
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: arnar valgeirsson

mikið er ég sammála þér. sýningin er mjög skemmtileg og reyndar fannst mér myndirnar misgóðar, sumar stórkostlegar og aðrar síðri. en misjafn er smekkur manna. vissi ekki af þessari eftirprentun.

Þetta er flottasti sýningarsalur landsins og vona ég að hann verði í ríkum mæli nýttur sem slíkur. Sem betur fer tekur við önnur sýning að þessari lokinni því þetta er magnað hús.

arnar valgeirsson, 25.4.2008 kl. 17:06

2 identicon

Mikið væri gaman að sjá e-ð af þessum myndum hérna á netinu.  Þú hefur ekki tök á að redda því - er það nokkuð?   K.kv. E.

Edda (IP-tala skráð) 25.4.2008 kl. 19:03

3 Smámynd: Pjetur Hafstein Lárusson

Kæra Edda.

Heimasíða Einars er: http://www.einarhakonarson.com/  þar getur þú séð myndir eftir hann.

K.kv.

Pjetur

Pjetur Hafstein Lárusson, 25.4.2008 kl. 19:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband