18.4.2008 | 13:08
Steinn Steinarr XXVII
Aldrei fór það svo, að Steinn Steinarr drekkti kóngsins böðli, líkt og Jón Hreggviðssong gerði forðum, eða gerði ekki, eins og þar stendur. En þó var hann dæmdur sakamaður, engu síður en kristsbóndinn á Rein. Um þennan dóm farast Sigfúsi Daðasyni svo orð í ritgerð sinni, Maðurinn og skáldið Steinn Steinarr, sem lesa má í bókinni Sigfús Daðason, ritgerðir og pistlr, er Forlagið gaf út árið 2000. Þar segir m.a.:
Þar kom að Steinn var dæmdur, bæði í héraði og hæstarétti, fyrir kommúistísk ofbeldisverk unnið árið 1933. Því næst birtir Sigfús frásögn Alþýðublaðsins af þessu máli, frá 27. febrúar 1935, en hún hljóðar svo:
Á mánudaginn féll Hæstaréttardómur í hinu svonefnda hakakrossmáli á Siglufirði. Fimm kommúnistar höfðu sumarið 1933 ráðist á gálgakrossfána, sem blakti á stöng á húsi þýska ræðismannsins á Siglufirði, og skorið hann niður. Þóroddur Guðmundsson hét sá er var fyrir hópnum. Þeir Steinn Steinarr skáld og Eyjólfur Árnason hjálpuðu honum, en Gunnar Jóhannsson og Aðalbjörn Pétursson stóðu álengdar og horfðu á. Konsúllinn kærði þennan niðurskurð flaggsins, og voru þeir Þóroddur, Steinn og Eyjólfur dæmdir í þriggja mánaða fangelsi, en Gunnar og Aðalbjörn í tveggja mánaða fangelsi fyrir að hafa verið vitundarvottar. Hæstiréttur breytti ekki dómi Þórodds, Gunnars og Aðalbjarnar, en stytti fangelsisdóm Steins og Eyjólfs í tvo mánuði. Dómurinn er ekki skilorðsbundinn. Þessi dómur sýnir glögglega hverskonar réttur er til hér á landi, einn fyrir verkamenn og annar fyrir burgeisa.
Og lýkur hér tilvitnun í Alþýðublaðið.
Það skal tekið fram, að hvorki Steinn né félagar hans, þurftu að sitja af sér þessa dóma. Eigi að síður ber þeim heiður fyrir þann verknað, sem þeir voru dæmdir fyrir. Því skal þessu haldið til haga.
Steinn var ekki eina skáldið í hópi hinna dæmdu; forsprakkinn, að mati hæstaréttar, Þóroddur Guðmundsson, sem jafnan kenndi sig við Sand í Aðaldal, var á sinni tíð þekkt skáld, þótt nokkuð hafi fennt yfir nafn hans síðari árin. En það er önnur saga.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 13:10 | Facebook
Athugasemdir
Ég þakka þér Pjetur fyrir skemmtilega og fróðlega pistla um uppáhaldsljóðskáldið mitt.
Óskar Aðalgeir Óskarsson, 18.4.2008 kl. 14:07
Sæl Guðlaug Helga.
Jú, mikið rétt, þeir voru bræður, Heiðrekur og Þóroddur, synir Guðmundar skálds Friðjónssonar á Sandi. Sigfús Bjartmarsson skád er svo bróðursonur þeirra.
Pjetur Hafstein Lárusson, 18.4.2008 kl. 19:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.