Steinn Steinarr XXVI

Í gær fjallaði ég um lögin hennar Bergþóru Árnadóttur við ljóð Steins Steinarrs.  Eins og lesendur geta séð, nefndi ég nokkur þeirra.  Nú hefur einn bloggvina minna vakið athygli á því, að ég sleppti “einu fallegasta og einlægasta” lagi Bergþóru, en það gerði hún við ljóðið Verkamaður .    

 

Já, mikið rétt, lag Bergþóru við þetta ljóð Steins er bæði fallegt og einlægt.  En einhvern veginn hefur mér alltaf  þótt þetta ljóð Steins skera sig úr öðru, sem eftir hann liggur.  Ég get ekki að því gert, að mér finnst í því holur rómur.  Ljóðið birtist í fyrstu bók skáldsins, Rauður loginn brann, sem kom út árið 1934.  Það sama ár var hann rekinn úr Kommúnístaflokknum, þar sem hann hafði verið félagi í svo sem tvö ár.  Raunar má geta þess, að upphaflega birtist ljóð þetta í Rétti, 1. hefti ársins 1933.  Þá var enn ólokið því verki, að sparka Steini úr Kommúnístaflokki Íslands.  

 

Ljóðið Verkamaður fjallar sem kunnugt er um verkamann, sem lætur hverjum degi nægja sína þjáningu, uns þar kemur, að stéttarbræður hans rísa upp til blóðurgar baráttu, í hverri hann lætur lífið.  Mér finnst þetta ljóð vera sósíalrealísk samsuða, sem hefði sómt sér ágætlega í stalínísku “bókmenntariti” austur í Moskvu.  En Steinn er ungur maður og leitandi, þegar hann yrkir þetta ljóð.  Sjálfur hef ég ekki úr háum söðli að detta í þessum efnum; pólitískur skáldskapur, sérstaklega ungra og óreyndra manna, er yfirleitt barnalegur.   

 

Bergþóra Árnadóttir var hrifnæm listakona og lag hennar við Verkamanninn hans Steins er gert á umbrotatímum, kenndum við 68-kynslóðina.  Í því ljósi ber að líta það.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband