Steinn Steinarr XXV

Ýmsir hafa orðið til, að semja og flytja lög við ljóð Steins Steinarrs.  Sumir hafa gert það samkvæmt þeirri reglu, að list sé eftir því betri, sem hún er síður við alþýðu skap.  Verður hver að hafa sinn háttinn á.  En til allrar hamingju eru hinir fleiri, sem samið hafa skemmtileg  og um leið góð lög við ljóð Steins.  Má í því sambandi nefna hið ágæta lag Ragga Bjarna við ljóðið Barn. 

Flest ljóða Steins henta vel til söngs.  Þó eru þau vandmeð farin, sem að líkum lætur.  Þær eru fleiri en ein, hliðarnar á ljóðunum þeim arna.  Á því hafa ýmsir farið flatt, í slagaragerð við ljóð Steins Steinarrs.  En nóg um það.

bergþóra

Þann 15. febrúar s.l. hefði söngvaskáldið Bergþóra Árnadóttir orðið sextug, en hún lést þann 8. mars á síðasta ári.  Nú hafa lög hennar, í hennar eigin flutningi, verið gefin út, fimm diskar í öskju, og má þar heyra rúmlega 100 lög.  Útgefandi er bóka- og tónlistaútgáfan Dimma. Af þessum rúmlega 100 lögum, eru 12 við ljóð eftir Stein.  Má þar nefna ljóð eins og Hin mikla gjöf, Hljóð streymir lindin í haga og Vöggugjöf. 

Ástæðulaust væri, að láta þessa getið hér, nema sakir þess, að túlkun Bergþóru á ljóðum Steins Steinarrs er mjög einlæg og eftir því góð, enda var hún ljóðasöngvari í sérflokki. 

Tvennir tónleikar hafa farið fram undanfarið í tilefni þess, að sextíu ár eru liðin frá fæðingu Bergþóru.  Ég fór á þá síðar, í Grafarvogskirkju nú um daginn og sé ekki eftir því.   

Það er óhætt, að mæla með skífusafni Bergþóru Árnadóttur, ekki aðeins við þá, sem unna góðri tónlist, heldur einni við aðdáendur ýmissa skálda, s.s.  Tómasar Guðmundssonar, Páls J. Árdal og síðast en ekki síst Steins Steinarrs. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Þetta er frábært safn og ætti að vera til á hverju heimili en mér finnst verst að þú gleymir að nefna lag hennar við Verkamann Steins Steinarrs sem að mínu viti er eitt af hennar fallegustu og einlægustu lögum.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 11.4.2008 kl. 08:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband