28.3.2008 | 13:23
Steinn Steinarr XXI
Í spjalli mínu um Stein, þann 8. mars. s.l. (spjalli nr. XVI) fjallaði ég um minningarljóð hans um Jón Pálsson frá Hlíð, sem ýmsum þykir nokkuð svo kaldranalegt. En eins og ég tel mig færa rök fyrir í því spjalli, fjallar kvæðið ekki aðeins um nöturleg örlög Jóns, heldur einnig örlög Steins sjálfs.
Minningarljóð Steins um Eggert Snorra Ketilbjarnarson, sem fórst með togaranum Apríl, er af allt öðrum toga. Þetta er sonnetta og læt ég hana fylgja hér. Reyndar er ljóð þetta það fyrsta, sem birtist eftir Stein á prenti, en það var í Lögréttu, þann 18. mars 1931. Birtist það undir nafninu Aðalsteinn Kristmundsson. Steinn Steinarr var enn ekki í heiminn borinn, ef svo má að orði komast. Til fróðleiks má geta þess, að Þorsteinn Gíslason var útgefandi og ritstjóri Lögréttu.
Ég minnist þín í vorsins bláa veldi,
er vonir okkar stefndu að sama marki,
þær týndust ei í heimsins glaum og harki,
og hugann glöddu á björtu sumarkveldi.
Þín sál var öll hjá fögrum lit og línum,
og ljóðsins töfraglæsta dularheimi.
Þú leiðst í burt frá lágum jarðarseimi,
í ljóssins dýrð, á hugar-vængjum þínum.
Ég sakna þín, ég syrgi fagran vin,
í sálu þinni fann ég dýpsta hljóminn,
er hóf sig yfir heimsins dægur-glys.
Á horfna tímans horfi ég endurskin,
ég heyri ennþá glaða, þýða róminn,
frá hreinni sál með hárra vona ris.
Ólíkt því, sem gerist í minningarljóðinu um Jón Pálsson frá Hlíð, er það söknuðurinn einn og sorgin, sem hér kemst að. Hér yrkir Steinn af hjartans einlægni; hálfkæringurinn, sem gjarnan gætir í ljóðum hans, er víðsfjarri. Það leynir sér ekki, að vinátta þeirra Steins og Eggerts Snorra hefur staðið djúpum rótum, enda voru þeir bernskuvinir. Samband Steins og Jóns frá Hlíð var hins vegar fyrst og fremst í bæjarslarkinu í henni Reykjavík. Þar í liggur munurinn á þessum tveimur minningarljóðum.
Því hefur oft verið haldið fram, að skáldaferill Steins spanni aðeins fjórtán ár. Er þá miðað við útgáfuár fyrstu bókar hans, Rauður loginn brann, 1934 og þeirrar síðustu, Tíminn og vatnið, 1948. En minningarljóðið um Eggert Snorra er ort þremur árum fyrir útkomu rauða logans brennandi". Það eitt lengir skáldaferilinn, sem því nemur. Auk þess er enginn viðvaningsbragur á þessu ljóði. Því er mun nær, að telja, að skáldferill Steins nái yfir tvo áratugi en fjórtán ár. Það er tæpast hægt að telja það mjög skamman feril, miðað við æviskeið Steins, þegar þess er gætt, að hann lést aðeins tæplega fimmtugur að aldri.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 19:21 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.