21.3.2008 | 01:41
Steinn Steinarr XIX
Það hendir, að ég fái viðbrögð frá ættingjum Steins, við spjalli mínu um hann. Fyrir það er ég þakklátur. Í framhaldi af vangaveltum mínum um kaþólsku Steins í 2. spjalli, þann 19. janúar s.l., skrifaði einn þeirra mér og benti mér á, að menn skyldu ekki vanmeta þátt trúarinnar í lífi og ljóðum Steins. Ég er honum sammála; kristinnar trúar gætir víða í ljóðum hans. En það fer gjarnan dult, eins og fleira í eðli og verkum þessa margslungna manns.
Nú er föstudagurinn langi og því ekki úr vegi, að birta Passíusálm nr. 51. Ég er ekki frá því, að ýmsir haldi, að þetta sé gamankvæði, eða að minnsta kosti ort í hálfkæringi. En því fer fjarri, að mínu mati. Enda þótt þetta ljóð sé sveipað nokkuð svo kæruleysislegum blæ á ytra borði, er það í rauninni trúarlegt ákall. Gerðu ekki margir sér ferð á Golgata, forðum tíð, til skemmta sér yfir kvölum Krists? Og er firring okkar ekki slík, að okkur er tamt, að líta jafnvel sárustu kvöl náunga okkar sem hálfgerð leiðindiog ekkert umfram það? En hér kemur ljóðið og dæmi svo hver fyrir sig.
Passíusálmur nr. 51
Á Valhúsahæðinni
er verið að krossfesta mann.
Og fólkið kaupir sér far
með strætisvagninum
til þess að horfa á hann.
Það er sólskin og hiti,
og sjórinn er sléttur og blár.
Þetta er laglegur maður
með mikið enni
og mógult hár.
Og stúlka með sægræn augu segir við mig:
Skyldi manninum ekki leiðast
að láta krossfesta sig?
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Þúsund þakkir fyrir þetta. Að mínu mati er þetta eitt fallegasta ljóð Steins Steinarrs og í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Gleðilega Páska!
Ingibjörg Hinriksdóttir, 21.3.2008 kl. 09:37
Heill og sæll.
Því miður hef ég ekki lært þá list að biðja einhvern að gerast bloggvinur. Aftur á móti kann ég að ýta á réttan takka, fari einhver fram á bloggvináttu mína.
Pjetur Hafstein Lárusson, 22.3.2008 kl. 13:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.