Steinn Steinarr XVIII

Ljóð eiga það til, að læða að manni undarlegum hughrifum. Auðvitað verða þessi hughrif ekki skýrð, frekar en aðrir huglægir þættir mannlegrar tilveru. En þar með er ekki sagt, að ekki sé hægt, að velta hlutunum fyrir sér. Þannig hafa mér jafnan þótt nokkur líkindi með ljóðum Steins Steinarrs og sænksa skáldsins Gunnars Ekelöf. Gunnar var árinu eldri en Steinn og lifði hann í áratug. Hann telst brautryðjandi módernismans í sænskri ljóðagerð. Ýmis íslensk skáld hafa þýtt eftir hann einstök ljóð, s.s. eins og Jóhann Hjálmarsson og Einar Bragi. Sjálfur gaf ég, árið 1990, út bók, með þýðingum mínum á nokkrum ljóða hans. „Því nóttin kemur", nefnist sú bók, og dregur nafn sitt af einu ljóði, sem þar má lesa. Í þýðingu minni er það á þessa leið:

Því nóttin kemur

þegar gleði og harmur

hvíla saman í ró.

Þú sérð rökkrið leggjast hratt yfir

eins og klukknaóm

og gluggana kvikna einn af öðrum.

Innan þeirra hefur fólkið borðað sitt spaghettí

og án þess að leiða hugann að morgundeginum

sefur það brátt hvert hjá öðru.

Því nóttin kemur

Það er enginn morgundagur

Það er enginn borg.

Til fróðleiks má geta þess, að ljóð þetta orti Ekelöf á Ítalíu, eftir að bær einn, sem var ekki fjarri þeim stað, hvar hann dvaldi, varð fyrir aurskriðu. Hlaust af því margra bani. En það er annað mál.

Í sjálfu sér er þetta ljóð ekki líkt neinu, sem Steinn orti. Og þó leynist þarna einhver skyldleiki. Hverfulleikakenndin í þessu ljóði Ekelöfs minnir mig mjög á Stein. En það vantar kaldhæðnina. Steinn var meistari kaldhæðninnar, þegar hann vildi það við hafa.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband