Steinn Steinarr XVII

Fjarri fer því, að Steinn Steinarr hafi verið brautryðjandi í þeirri iðju listamanna, að níða skóinn hver af öðrum Þetta er ævafornt fyrirbæri og þekkist í öllum heimsins hornum. Orsaka þessa er vafalaust víða að leita. En megiorsökin felst að mínu mati í þeirri þversögn, að list er persónuleg tjáning, sem leitar sér almennrar viðurkenningar. Svo er auðvitað vissara að hafa það hugfast, að í listinni sigla fleiri undir fölsku flaggi, en í öllum greinum mannlegrar tilveru, að stjórnmálunum einum undanskildum.

En hvers vegna nefni ég Stein Steinarr sérstaklega í þessu sambandi? Jú, mér vitanlega hefur enginn íslenskur listamaður náð lengra í listrænu persónuníði um bræður sína í listinni, en einmitt hann. Gott dæmi þessa, er viðtal, sem birtist við hann í „Birtingi" árið 1955. Tilefnið er útkoma bókarinnar „Ljóð ungra skálda." Þar segir Steinn um Jón úr Vör:

„Mér virðist hann hafa nokkra sérstöðu meðal þessara skálda. Hann er þeirra elztur sem slíkur og hefur ekki orðið fyrir áhrifum frá neinum nema sænsku öreigaskáldunum svokölluðu, sem nú eru löngu gleymd og grafin. Þrátt fyrir það er hann allgott skáld og býsna nýtízkulegur. En hann er varla til eftirbreytni. Það er naumast á nokkurs annars manns færi að þræða það einstigi milli skáldskapar og leirburðar, sem hann fer."

Það verður tæpast sagt, að Steinn fjalli þarna um skáldbróður sinn af mikilli virðingu. Á lymskufullan hátt læðir hann því að, að ef til vill sé Jón heldur gamall til að eiga erindi í umrætt rit og má vissulega til sanns vegar færa. Hann er 38 ára á útgáfuári bókarinnar og þess utan þjóðþekkt skáld. Það á vitanlega síður við um hin skáldin; til þess eru þau of ung.

En nú færir Steinn sig upp á skaftið, með því að fullyrða, að Jón úr Vör hafi aðeins orðið fyrir áhrifum frá sænsku öreigaskáldunum; löngu gleymdum og gröfnum. Auðvitað var Jón fyrir áhrifum frá þeim. En enn þann dag í dag lifa verk sumra þeirra meðal Svía, hvað þá heldur árið 1955. Þess utan má ekki gleyma því, að uppvaxtarár Jóns á Patreksfirði, meðan kreppan ríkti, eru helsta uppspretta skáldskapar hans. Þetta vissi Steinn auðvitað mæta vel, enda þekkti hann kröpp kjör á eigin skinni, ekki síður en Jón úr Vör.

Í lok umsagnarinnar um Jón úr Vör slær Steinn fram þeirri fullyrðingu, að skáldskapur Jóns þræði einstigi milli skáldskapar og leirburðar. Er þetta útsmogin aðferð Steins, til að slá sig til riddara á kostnað Jóns úr Vör, hugsanlega í augum þeirra ungu skálda, sem áttu verk í bókinni? Ég skal ekki segja. En svo mikið er víst, að hér er ekki talað af sanngirni í garð Jóns úr Vör, eins af okkar ágætustu skáldum á 20. öld. Hvað veldur?

Ég hef velt þessu fyrir mér árum saman. Ég vil taka það fram, að ég bar þetta aldrei undir Jón úr Vör. Bæri Stein á góma í samræðum okkar, varð ég aldrei var við annað en virðingu Jóns í garð hans sem skálds. Hitt er annað mál, að honum líkaði ekki allskostar við lífshlaup skáldbróður síns. Jón var enda stakur reglumaður, ekki aðeins hvað vín varðaði, heldur og lífshætti alla. En hann hallmætli Steini aldrei; fjarri fór því.

Hugsanlegt er, að Steini hafi þótt reglufesta Jóns úr Vör jaðra við smáborgaraskap. Það gæti hafa ært óstöðugan í umræddu viðtali. Hinu má ekki gleyma, að bæði þessi skáld ólust upp við sára fátækt, sem mótaði skáldskap þeirra beggja. Steinn var að eðlisfari uppreisnarmaður meðan Jón úr Vör var maður seiglunnar. Sverðið lék létt í höndum Steins; Jóni voru orfið og ljárinn tamari verkfæri.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

"... en láttu það svona í veðrinu vaka, þú vitir að hann hafi unnið til saka."

Mér finnst gaman að þessum Steinspistlum þínum. Sá gamli var langömmubróðir dóttur minnar og ég hef lengi hrifist af kallinum.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 15.3.2008 kl. 01:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband