8.3.2008 | 15:36
Steinn Steinarr XVI
Á spjalli mínu um Stein í gær, má skilja, að Jón Kristófer kadett hafi einn kunningja Steins, notið þess heiðurs, að skáldið hafi ort um hann tvisvar. Þetta er rétt að því leyti, að bæði kvæði Steins um kadettinn, eru ort að honum lifandi, enda átti það fyrir Jóni Kristófer að liggja, að standa yfir moldum Steins. Hinu skal haldið til haga, að tvisvar orti Steinn um Jón Pálson frá Hlíð. Síðara kvæðið leit Jón Pálsson frá Hlíð þó ekki sjálfur, a.m.k. ekki hér megin grafar, því það er minningarljóð um hann. Fyrr hafði Steinn hins vegar ort um hann Híðar-Jóns rímur" og birtist brot þeirra í heildarsafni því, sem kom út að Steini látnum.
Minningarljóð Steins um Jón Pálsson frá Hlíð, Til minningar um misheppnaðan tónsnilling", hefur farið fyrir brjóstið á sumum, en það birtist í Spor í sandi." Telja ýmsir ljóð þetta raunar lítt við hæfi. Og víst er um það; þetta er nokkuð svo kaldranalegt erfiljóð. En gætum að; ljóðið er ort í ávarpsstíl. En hinn látni er ekki ávarpaður í eintölu: Vort líf, vort líf, Jón Pálsson", o.s.frv. Þarna eru rakin harla hrakleg örlög listamanns. En það leynir sér ekki, að Steinn telur sig deila þessum örlögum með hinum látna.
Í fjórða spjalli mínu um Stein Steinarr sagði ég frá þeirri bælingu, sem kom í ljós, þegar hann kom heim til gamallar vinkonu Jón Pálssonar frá Hlíð, á útfarardegi hans, Unnar Baldvinsdóttur, til að gæta barna hennar, svo hún kæmist í kirkjuna. Sú saga lýsir tilfinningaríkum og góðhjörtuðum manni, sem er of bældur, til að tjá tilfinningar sínar í orðræðu við annað fólk. Er það ekki einfaldlega það sama, sem kemur fram í ljóðinu Til minningar um misheppnaðan tónsnilling?" Og er ekki hugsanlegt, að ljóðið sé öðrum þræði, eins konar minningarljóð" um brostnar vonir þeirra beggja, Jóns Pálssonar frá Hlíð og Steins Steinarrs?
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Þakka fróðleikinn um Stein Steinarr. Er eitt af mínum uppáhaldsskáldum, íslenskum. Gaman að þessu.
Sigríður Sigurðardóttir, 8.3.2008 kl. 19:06
Ég tek undir þetta með þér. Ljóðið um Jón Pálsson genginn er eitt af betri ljóðum Steins. Ekki gleyma því heldur að hann telur að nú loks fái Jón Pálsson þá æru sem honum ber:
mun Herrann hærra setja
eitt hjarta músíkalskt.
Ingibjörg Hinriksdóttir, 8.3.2008 kl. 23:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.