7.3.2008 | 13:53
Steinn Steinarr XV
Það var ekki oft, sem Steinn orti um kunningja sína a.m.k. þannig að nafn þeirra kæmi fram. Þó dugðu ekki minna en tvö ljóð um einn þeirra, Jón Kristófer, eða Jón Sigurðsson, eins og hann hét réttu nafni. Kristófersnafnið gaf Steinn honum, rímsins vegna í því ljóði, sem fyrst skal nú nefnt. Þessi ljóð eru; Þegar Jón Kristófer Sigurðsson lét úr höfn, stóð Herinn á bryggjunni og söng", sem birtist í Spor í sandi" og Hjálpræðisherinn biður fyrir þeim synduga manni Jóni Sigurðssyni fyrrverandi kadett". Það má sjá í Ýmsum kvæðum."
En hver var hann, þessi Jón Kristófer Sigurðsson kadett í Hernum? Hann var á sinni tíð þekktur maður í bæjarlífinu í Reykjavík, en Breiðfirðingur að uppruna og átti kyn sitt m.a. að rekja til Fagureyjar, fæddur 1912 en lést í Reykjavík 1992. Lífshlaup hans var með ólíkindum ævintýralegt. Þannig var hann ekki aðeins verið kadett í Hjálpræðishernum. Hann þjónaði nefnilega í breska hernum í síðari heimsstyrjöldinni, ýmist sem korpáll eða sergent, svona eftir því, hvorum hann veitti betri þjónustu í það og það skiptið, Bretakóngi eða Bakkusi konungi. Reyndar gerðist hann liðhlaupi frá þeim báðum, en það er önnur saga.
En hér skal ekki fjallað um lífshlaup Jóns Kristófers kadetts í smáatriðum, aðeins vísað á bókina Syndin er lævís og lipur", en þar tekur Jónas Árnason kappann tali. Það verður enginn svikinn af þeirri lesningu.
Sjálfur naut ég þeirra forréttinda að kynnast Jóni á efri árum hans. Ekki var hann alveg hættur að þjóna Bakkusi konungi, þótt sú þénusta væri reyndar orðin harla stopul.
Það var sama hvernig á stóð hjá Jóni, hann var jafnan sami séntilmaðurinn í framkomu og alltaf gekk hann klæddur eins og greifi, enda aristókrat að eðlisfari. Eitt sinn gekk ég fram á hann, þar sem honum hafði runnið í brjóst á bekk á Lækjartorgi. Slaufan og hatturinn voru vitanlega á sínum stað og jakkafötin eins og Haukur pressari hefði rétt lokið við að fara höndum um þau.
Nú jæja, ég settist hjá kappanum og vakti hann. Þegar hann rumskaði, reisti hann höfuðið, sem hafði sigið niður á bringu, með hátignarlegum blæ, leit fyrst á mig, svo torgið og loks aftur á mig og sagði, með þann virðuleik í röddinni, sem aðalsmönnum einum er í blóð borinn: Það er ekki lengur hægt að vera róni í Reykjavík." Einmitt það," svaraði ég. Hvað veldur svo hörðum örlögum?" Og ekki stóð á svari Jóns kadetts: Það er ekki lengur eftir einn einasti maður í strætinu, sem hægt er að ræða við um Eyrbyggju, hvað þá heldur Heimskringlu." Síðan hné höfuð aftur að bringu og kadettinn hélt á ný á vit drauma sinna.
Þannig menn orti Steinn Steinarr um, því þeir voru hluti af hans heimi,hans fólki.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.