Steinn Steinarr XII

Í ellefta pistli mínum um Stein Steinarr fjallaði ég um samskipti hans og Magnúsar Ásgeirssonar. Þegar það spjall var komið á netið, minntist ég þess, að Jóhann Pétursson, sem margir þekkja, sem Jóa vitavörð, ræddi þetta mál í viðtali við mig, sem birtist í bókinni „Frá liðnum tímum og líðandi" (Skjaldborg 2002). Þar spyr ég hann út í þetta og staðfestir hann, að Steinn hafi verið háður Magnúsi, hvað þetta snertir.

í síðara bindi ævisögu Steins Steinarrs eftir Gylfa Gröndal (JPV-útgáfan 2001), 19. kafla, segir frá ferð þeirra hjóna, Steins og Ásthildar Björnsdóttur til Mallorcu vorið 1954. Þau hjónin voru ekki ein á ferð; með þeim voru þeir Ólafur H. Einarsson kennari og fyrrnefndur Jóhann Pétursson. Ekki skal sá kafli rakin hér, að öðru leyti en því, að þar kemur fram, að það hafi farið í taugarnar á Steini, að félagar hans skyldu verða vitni að því, hve háður hann var Ásthildi varðandi erlend tungumál. Hann las að vísu ensku „lítilsháttar á bók", en framburðurinn var slakur.

Og víkur þá enn sögunni að Magúsi Ásgeirssyni. Magnús lærði norrænu við Háskóla Íslands, þótt hann lyki ekki prófi fremur en margir mætir menn. Eins og ljóðaþýðingar hans bera með sér, sem og valið á þeim ljóðum, sem hann þýddi, var hann vel menntaður, þótt próflaus væri. Það var Steinn hins vegar ekki. „Kjörin settu á manninn mark", segir Örn Arnarson í ljóði sínu um Stjána bláa. Og ef til vill lærðist Steini Steinarr aldrei, að meta sjálfan sig til fulls. Guði sé lof, að honum skyldi þá gefin þrjóskan.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband