Steinn Steinarr XI

Sá fjölhæfi og ágæti listamaður Steingrímur St. Th. Sigurðsson kom eitt sinn sem oftar fram í útvarpi. Í umrætt skipti ræddi hann um samskipti þeirra Steins Steinarrs og Magnúsar Ásgeirssonar þýðanda. Raunar mismælti Steingrímur sig og talaði um Magnús Á. Árnason listmálara í stað Magnúsar Ásgeirssonar. En þau mismæli staðfesti hann síðar við mig í samtali. Í þessu útvarpsviðtali hélt Steingrímur því fram, að um tíma hefði Steinn verið svo háður dómgreind Magnúsar á skáldskap, að hann hefði tæpast birt ljóð, án þess, að bera það undir hann. Fór svo að lokum, að Magnúsi tók að leiðast þetta, og tók fyrir þessa „þjónustu" enda mat hann skáldskap Steins mjög mikils og taldi það því ekki á sínu valdi, að bæta hann.

 

Um það leyti, sem títtnefnt útvarpsviðtal við Steingrím var flutt, tók ég viðtöl fyrir Moggann og ræddi þá nær eingöngu við gamla menn, sem höfðu frá ýmsu að segja, öðru en eingöngu sjálfum sér, svo sem alsiða er meðal yngra fólks og miðaldra. Til að fá þessa sögu Steingríms staðfesta, og eins til að koma því á prent, að Steingrímur hefði þarna verið að tala um Magnús Ásgeirsson en ekki Magnús Á. Árnason, spurði ég einn viðmælanda minn, Dósóþeus Tímótheusson um þetta mál. Dósóþeus, eða Dósi, eins og hann var jafnan kallaður, var bæði vinur Steins og Magúsar Ásgeirssonar. Og hann var fljótur að staðfesta frásögn Steingríms. Ekki man ég nákvæmlega hvenær ég tók þetta viðtal við Dósa, sem vel að merkja fæddist árið 1910 og lést árið 2003. En þetta var ekki löngu fyrir aldamótin. Þegar þarna var komið sögu var Dósi farin að tapa skammtímaminni. En hann var eldklár, þegar talið barst að liðnum tímum.

 

Dósi var skáldmæltur vel. Hann birti stöku sinnu ljóð í tímaritum en hélt skáldskap sínum lítt á lofti. Af kynnum mínum við hann held ég, að hann hafi metið skáldgáfu Steins svo mikils, að honum hafi þótt það jaðra við framhleypni af sinni hálfu, að flíka eigin ljóðum. Hann var þá ekki einn um það, sinnar kynslóðar. Til að skáldagáfa Dósa fari ekki fram hjá lesendum, langar mig til að birta hér fyrsta erindið í kvæði hans, „Kysstu mig vor". Bæði erindið og titill ljóðsins bera vott hinum rómantíska hugblæ Dósa. Gott væri, ef einhver gæti sent mér það, sem á kvæðið vantar.

 

Kysstu mig vor

eftir Dósóþeus Tímótheusson.

 

Kysstu mig vor, þú komst yfir sæinn í dag,

í kvöld er ég þögull og reika um strætin og torgin.—

Syngdu á fiðluna þína ljúflingslag,

langt úti í blámanum týndist að eilífu sorgin.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband