Steinn Steinarr X

Þeir voru jafnaldrar, Steinn Steinarr og Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur og báðir synir borgarinnar, hvort á sinn hátt. Steinn var sem kunnugt er fóstursonur hennar, enda framburður hans vestfirskur framan af ævi, eins og þar stendur. Aftur á móti var Sverrir borinn og barnfæddur Reykvíkingur.

Eins og fram hefur komið í þessum pistlum mínum um Stein, sá ég hann aldrei, a.m.k. ekki mér vitanlega. Og eiginlega þekkti ég Sverri Kristjánsson ekki heldur. Þó léttum við tvisvar saman á borðum, en það er annar handleggur.

Ég ætla mér ekki að fjalla um ritverk Sverris hér, en þar fór mikill hagleiksmaður orðs og sögu. Þegar hann lést, árið 1976 þótti mér strengur brostin í lútu Reykjavíkur. Mér varð þá hugsað til hans og annarra, sem settu svip á borgina, meðan hún var enn í allra augum, sú unglingshnáta, sem hún hefur ævinlega verið. Gildir þá einu, þótt sumir séu svo miklir sveitamenn, að rugla henni saman við rosknar hefðarborgir álfunnar, hvort heldur er á Temsárbökkum eða við Tíberfljót.

Settist ég þá niður og skrifaði eftirfarandi prósaljóð, sem svo birtist í ljóðabók minni, „Túkall á rönd", þá um haustið. Eins og sjá má, er hér skirfað í anda Steins Steinarrs, enda efnið öðrum þræði hugsað, sem minning um þá Stein og Sverri, sem og aðra, sem þá höfðu rölt um stræti borgarinnar.

 

 

Reykjavík

 

Reykjavík er léttúðugri en aðrar heimasætur þessa lands. Hún spókar sig í styttra pilsi en siðsamlegt þykir, og ekki er laust við, að hálsmálið sé óþarflega flegið. Og þó hefur hún ekki af mikilli fegurð að státa. Fæturnir, sem henni er svo annt um að hver maður sjái, eru jafnvel eilítið skakkir, og brjóstin lítt huldu, sverja sig meir í ætt við fermingarstúlku en þroskaða konu. Og þó hefur þessi heimasæta yfir þvílíkum þokka að ráða, að til engrar er meir biðlað hér um slóðir. Svo margan manninn hefur hún laðað frá blómlegum konum þessa lands, að ófáar þeirra hafa lagst í dvala, en aðrar sofnað svefninum langa, veslast upp, sem kallað er. Þær eru vindsorfin bein, meðan ungfrú Reykjavík dafnar sem aldrei fyrr. Frekar vilja menn strita slyppir og snauðir undir handarjaðri þessarar konu, en liggja mettir og sælir við heitan barm annarra kvenna.

Reykjavík býður mönnum blíðu sína fyrr en kynsystrum hennar þykir hæfa. Og þótt hún kasti elskhugum sínum fljótlega út á guð og gaddinn, rölta þeir æviskeið sitt undir svefnhverbergisglugga hennar í vonlausri bið þess, að gluggatjöld færist örlítið úr stað, og ungfrú Reykjavík seiði þá aftur til ásta.

 

(Úr bókinni Túkall á rönd, 1976)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Fallegt hvernig þú skrifar.  Við erum jafnaldrar og ég man ekki hvort ég sá Stein Steinarr. Mér finnst það þó líklegt af ýmsum ástæðum. Sverrir heillaði mig. Ég stóð stundum álengdar þar sem hann var að ræða við menn á Landsbókasafninu, niðri við fatahengið.  Hreifst af honum tungutaki hans og skrifum. kv. B

Baldur Kristjánsson, 16.2.2008 kl. 19:47

2 Smámynd: Kreppumaður

Skemmtilega skrifað Pétur.  Og gott að fá aðra sýn á stein en úr ævisögu hans sem kom út fyrir fáeinum árum.

Kreppumaður, 16.2.2008 kl. 21:41

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Sverrir Kristjánsson skrifaði tilgerðarlegan og uppblásinn stíl og hann var alkóhólisti eins og þeir eru leiðinlegastir, menntamannhrokgikkur eins og þeiri eru svæsnastir. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.2.2008 kl. 01:04

4 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Sigurður Þór skefur ekki utanaf því.

Stein sá ég aldrei mér vitanlega, en kynntist móður hans hinsvegar, henni Etelríði Pálsdóttur.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 17.2.2008 kl. 06:37

5 Smámynd: Pjetur Hafstein Lárusson

Þakka ágæt svör. Já, Baldur, við verðum ýmsir að láta okkur nægja að sitja hljóðir við fótskör meistaranna.

 Það er rétt hjá þér Siggi, það gat verið hroki í Sverri. Það er nú eitthvað annað en sagt verður um okkur, sem sveipaðir erum hógværðinni og lítillætinu.

Seg þú mér eitt Heimir, værir þú til í að segja mér frá kynnum þínum af Etilríði?

Pjetur Hafstein Lárusson, 17.2.2008 kl. 13:34

6 identicon

Skemmtilegar greinar um Stein,  Sverrir var prófdómari þegar ég var í sögu í Háskólanum.  Maður komst ekki hjá því að verða nervös í návist þessa andans manns.  Mér þótti hann skemmtilegur stílisti og fræðingur og mér finnst að Sigurður ætti að gleyma hinum erfiðari hliðum lífsins stundum.  Ég vann með syni Sverris, Einari sem lést fyrir aldur fram í útlöndum, á Búrfelli sumarið 1967.  Það er sumar sem ég gleymi ekki. 

Erling Ólafsson (IP-tala skráð) 22.2.2008 kl. 13:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband