9.2.2008 | 19:40
Steinn Steinarr VIII
Víst er ég vesall piltur
af vondum heimi spilltur,
og þankinn fleytifylltur
af flestra sorg og neyð.
Um þessar götur gekk ég
og greiða lítinn fékk ég,
af sulti ei saman hékk ég,
og svona er margra leið.
Þetta er fyrsta erindi ljóðsins og þarf ekki frekari vitna við. Umrenningur Chaplins og fyrrum niðursetningurinn Steinn Steinarr, sem fetaði sig um götur Reykjavíkur, eru einn og sami maðurinn.
Ég var úrkastsins táknræna mynd, ég var mannfélagssorinn,
og mér var hvarvetna synjandi vísað á braut,
og þrjózkan, sem lágvöxnum manni í blóðið er borin,
kom bágindum mínum til hjálpar, ef allt um þraut.
Þannig hljóðar þriðja erindið í ljóði Steins, Að fengnum skáldalaunum".
Nei, það er ekki ætlan mín að nota Stein Steinarr sem rafnagnsinnstungu og koma honum í samband við tvö göt á vegg. En séu umrenningur Chaplins og hann ekki einn og sami maðurinn, þá eru þeir í það minnsta sömu náttúru.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
... skemmtilegt að lesa skrif þín um Stein... í huga mínum hefur hann alltaf borið höfuð og herðar yfir aðra þá sem skrifað hafa ljóð á Íslandi... eru þó margir aðrir góðir... en, því miður hefur ekki margt bitastætt sést í ljóðagerð síðustu 30 árin eða svo...
Brattur, 9.2.2008 kl. 21:46
Ég ætla að byrja á að þakka fyrir frábærar sögur og tilvitnanir í Stein Steinarr, sem eins og þú segir var umrenningur og ómagi á fyrra skeiði bernsku sinnar. Skeiði sem átti eftir að móta hugsun hans og hátterni um ókomna tíð.
Við Steinn vorum góðir kunningjar þegar ég var um sautján ára aldur og hefur margt af hans meinhæðnu kvæðum mótað bæði hugsun og tilsvör mín sem reyndar ekki allir hafa skilið í tímans rás. En þarna semsagt hafði Steinn verið látinn í ein 15 ár, en samt vorum við eins og eitt þegar ég las ljóðin hans og setti mig í spor hans og hugsun.
Hann er óneitanlega með fremstu skáldum síðustu aldar en mér finnst það samt einhvernvegin ekki vera alveg rétt af mönnum að gera uppá milli frábærra skálda á þennan einfalda hátt. Tómas Guðmundsson var einnig frábært skáld og um hann hafa líka verið skrifaðar svona hallelúja greinar, þar sem hann er settur í öndvegi Íslenskra skálda síðustu aldar einnig mætti nefna Davíð Stefánsson og þú nefnir reyndar marga til sögunnar í þessum greinaflokki. Meðal annars:
Hreppsómaga hnokkann sem hírðist inná palli, sem um margt hefur lifað svipaða ævi og Steinn, steig samt spor sín á öðrum stalli.
Það er mjög svo erfitt að setja sig í dómarasæti og dæma menn á þennan hátt. Hvers eiga öll hin skáldin að gjalda, Davíð sem t.d. var vinsælasta skáld þjóðarinnar á síðustu öld svo engum blöðum er þar um að fletta, eða þá Tómas Guðmundsson sem með réttu hefur verið kallað Reykjavíkur skáldið. Nú eða skáld síðari hluta aldarinnar t.d. Hannes Pétursson eða Matthías Johannesen.
En þetta allt breytir ekki því að við Steinn eigum enn í góðu sambandi. Ég man t.d. þegar ég var polli í Reykjavík og var að leik með eldri krökkum í Fossvoginum þá var talað um að hann gengi aftur hann Steinn og birtist hann sérstaklega þegar tekið væri að rökkva á kvöldin í hvítu laki já það brást sjaldan að þegar rökkva tók birtist þarna einhver í hvítu laki og við skelfingu lostin þutum eins og pílur heim á leið. Seinna meir sáum við að þetta var bara einn af eldri strákunum sem þótti skemmtilegt að hrella lítil börn.
En Steinn verður alltaf eitt af mínum skáldum og í uppáhaldi.
Bestu kveðjur Baldvin
Baldvin Baldvinsson (IP-tala skráð) 10.2.2008 kl. 20:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.