8.2.2008 | 11:47
Steinn Steinarr VII
Mér er það stórlega til efs, að umkomulausara fólk hafi verið til á Íslandi, en niðursetningar gamla bændasamfélagsins. Ómálaga börn voru rifin úr faðmi foreldra sinna og þeim ráðstafað af hreppnum, eins og verið væri að reka fé í dilka. Guð og lukkan réðu því svo, hvar ómagarnir lentu og hvernig meðferð þeir fengu.
Piltstauti sá, Aðalsteinn Kristmundsson, er hóf að rölta um götur Reykjavíkur undir því meitlaða nafni Steinn Steinarr, var úr hópi þessa auðnulausa fólks. Var síst að undra, að hann smíðaði sér skáldanafn úr grjóti.
Með fáum undantekningum svo sem Bólu-Hjálmari og Stephani G. Stephanssyni höfðu Íslendingar vanist því, að höfuðskáld þeirra væru ættgöfugir menntamenn eða í það minnsta hempuklæddir kirkjunnar þjónar fram til dala, eins og t.d. séra Jón Þorláksson á Bægisá. Lágmarkið var, ef menn ætluðu sér inngöngu í höllu Braga, að þeir ættu til gildra bænda að telja. Þeir sem neðar voru settir í mannvirðingarstigann, en ortu þó, kölluðust alþýðuskáld" og þótti miður fínt á betri bæjum.
En sem sagt, skömmu eftir glanshátíðina miklu á Þingvöllum árið 1930, fer hann að mæla göturnar í höfuðstaðnum, þessi niðursetningur að vestan. Reyndar naut hann þess, umfram marga slíka, að hann var heppinn með fóstur. En það er önnur saga.
Ekki er að orðlengja það, að piltur þessi lagðist í skáldskap, með þeim árangri, sem alþjóð þekkir. Vissulega var Steinn Steinarr ekki hið eina skáld sinnar tíðar, sem alþýða þessa lands ól af sér. Það var meira að segja annar niðursetningur í skáldahópnum, þótt lítið færi fyrir honum, hógværðarinnar vegna, og á ég hér við hreppsómagahnokkann" Örn Arnarson. Og ekki má gleyma Reykjavíkurskáldinu Vilhjálmi frá Skáholti.
Steinn var síður en svo einn um það, sinnar kynslóðar, að yrkja vel. Auk Arnar Arnarsonar og Vilhjálms frá Skáholti má nefna skáld eins og Davíð Stefánsson og Tómas Guðmundsson og raunar fleiri. En með fullri virðingu fyrir þeim og öðrum, sem nefna mætti í sömu andrá, er Steinn Steinar það skáld síðustu aldar, sem varpar ljósi, jafnt á gengna slóð, sem og veginn fram. Hann er sá steinn, sem stærstur er í vörðu íslensks skáldskapar allar götur aftur til Jónasar Hallgrímssonar.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.