Steinn Steinarr V

Sú var tíð, að Reykjavík var móðir fárra.  Aftur á móti fóstraði hún við barm sér fjölda fólks úr öðrum landshlutum, sem leitaði hjá henni ásjár, oft án sýnilegs tilgangs.  Steinn Steinarr var einn slíkra förumanna.  Hann mun hafa borið þar að garði skömmu eftir 1930, þá rétt  rúmlega tvígugur piltur að vestan.  Síðasta árið, sem hann lifið, 1958, skrifaði hann frásögn af þessu flandri sínu til höfuðstaðarins og fer fyrri hluti hennar hér á eftir:

 „Á sólbjörtum morgni fyrir meira en hálfum mannsaldri síðan, stóð ég á bryggjunni, þar sem nú heitir Ægisgarður, og litaðist um.  Þetta var Reykjavík, endimark drauma minna, jafnt hamingju og harma, og loksins var ég kominn alla leið.  Enn í dag man ég, hvað ég var undarlegur innvortis, ég gat ekki hugsað nokkra hugsun til enda, bara laumaðist áfram með pokann minn á bakinu í einhvers konar sóttheitri leiðslu.  Í miðju Austurstræti rankaði ég við mér andspænis litlu búðarskilti, sem á var letrað:  Amatörverzlun Þorleifs Þorleifssonar.  Þetta er nú meiri ritvillan, maður, hugsaði ég, það stendur amatörverzlun í staðinn fyrir matvöruverzlun.

En nú voru góð ráð dýr.  Ég þurfti að komast upp á Njálsgötu 12 til fólks, sem hafði lofað að vera mér innan handar.  Og hvernig átti mér að takast það?  Ég spurði fjölda manns til vegar og fékk alltaf góð og reið svör, en það kom mér að litlu haldi.  Eftir tveggja klukkustunda villuráfandi hringsól tókst mér þó að finna hið umrædda hús.--

Síðan hef ég verið Reykvíkingur.  Og þessi borg varð fóstra mín og önnur móðir, ævinlega fremur mild og ljúf í viðmóti, þegar þess er gætt, að ég var mikill pörupiltur og brekabarn."

Steinn heldur áfram frásögn sinni og geta menn lesið hana í kvæðasafni hans og greina.

En nú bætist við frásögn úr annarri átt, þótt sama eðlis sé.  Árið 2002 kom út samtalsbókin „Frá liðnum tímum og líðandi", en þar tók ég tali fjóra heiðursmenn, þ.á.m. Jón frá Pálmholti en hann kom til Reykjavíkur, svo sem hálfum mannsaldri, eftir að Steinn Steinarr hóf að slíta skósólum sínum á götum borgarinnar.   Gef ég nú Jóni orðið, eftir að hafa spurt hann, hvenær leið hans hafi legið til Reykjavíkur:

Það var árið 1954, þá fór ég í Kennaraskólann.  Þegar ég kom í bæinn þekkti ég þar ekki nokkurn mann.  Í vasanum hafði ég miða með nöfnum og heimilisfangi fólks úr Hörgárdal, sem flutt hafði suður.  Þau höfðu búið á Bakanda; Sigursteinn Júlíusson og Lilja Sveinsdóttir frá Flögu, systir Jóhanns magisters.  Á þessum miða stóð, að þau byggju við Njálsgötu. 

Ég hafði komið suður með rútu.  Út úr henni sté ég við Kalkofnsveg, þar sem afgreiðsla B.S.Í. var þá.  Ég sá þarna götukort af bænum og reyndi að átta mig á því, hvar Njálsgata væri.  Eftir það lagði ég af stað yfir Lækjartorgið og upp Bankastræti.  Síðan tek ég beygjuna þaðan upp Skólavörðustíginn.  Ég taldi að það mundi vera stysta leiðin á Njálsgötu.  Auk þess sýndist mér færra fólk á þeirri leið, heldur en á Laugavegi.  Ég er svo að huga að því að spyrja til vegar.  En það var eins og allir væru að flýta sér.  Loks mæti ég lágvöxnum manni í gráum frakka og spyr, hvort hann geti sagt mér, hvar Njálsgata byrji?  „Já, já," svarðai hann.   Og hann snýr við og gengur með mér spölkorn upp Skólavörðustíginn og bendir mér á staðinn, þar sem Njálsgata byrjar og segir mér að halda þar áfram.  Ég kvaddi þennan ágæta mann og gekk áleiðis að hinu fyrirheitna húsi.

Svo er það einhvern tíma veturinn eftir, þegar ég var kominn í Kennaraskólann, að ég er staddur niðri á Lækjartorgi, ásamt einhverjum, sem ég hafði þá kynnst.  Þá sé ég þennan mann ganga eftir Torginu og inn á Hressingarskólann.  Ég spyr kunningja minn, hvort hann viti, hver þetta sé.  „Þetta", segir kunningi minn, „þetta er Steinn Steinarr."  Steinn Steinarr var því fyrsti maðurinn, sem ég talaði við í Reykjavík.  En nánari urðu „kynnin" ekki.

Og segir ekki meira af samskiptum þessara tveggja skálda, Steins Steinarrs og Jóns frá Pálmholti.  En ég velti því stundum fyrir mér, hvort það hafi ekki verið hlutskipti Steins, að vísa andans mönnum á Njálsgötu með einum eða öðrum hætti.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband