26.1.2008 | 17:24
Steinn Steinarr IV
Af fáum skáldum fer meiri sögum en af Steini Steinarr. Það eitt dugði, að hann var mikill kaffihúsamaður og nestor þeirrar skáldakynslóðar, sem umbylti íslenskri ljóðagerð um og eftir miðja síðustu öld. Raunar má segja, að Steinn hafi rutt þeim brautina. Hann var og hnyttinn í tilsvörum og gat verið meinhæðinn. Annað eins berst nú út.
En hvern mann hafði þetta meinhæðna skáld að geyma? Ljóð hans bera það með sér, að þar fór dulinn maður, enda orti Steinn í samræmi við sjálfan sig, svo sem gerist um mikil skáld. En honum var ekki tamt að flíka tilfinningum sínum; meinhæðnin stafaði ekki af meinlegu innræti, hún var brynja hans og skjöldur.
Ég þekkti Stein Steinarr ekki persónulega, enda ekki nema sex ára snáði, þegar hann lést. En allt frá því ég var um tvítugur að aldri, hef ég reynt að mynda mér skoðun á persónu hans, ekki aðeins út frá því sem eftir hann liggur, heldur einnig með samtölum við þá sem þekktu hann í lifanda lífi. Niðurstaða mín er sú, að Steinn hafi verið bældur maður. Vera má, að sú skoðun mín sé röng, en mig langar þó, til að sýna eitt dæmi, máli mínu til staðfestingar.
Unnur Baldvinsdóttir hét kona. Hún var tvígift. Síðari maður hennar var Veturliði Gunnarsson listmálari. Ég þekkti þau hjón vel, síðustu æviár Unnar. Hún sagði mér eftirfarandi sögu:
Jón Pálsson frá Hlíð hafði verið kostgangari hjá móður hennar, þegar Unnur var enn á barnsaldri. Þótti henni eftir það vænt um Jón. Henni var því mjög brugðið, þegar hún heyrði það í fiskbúð, að lík Jóns hefði fundist í sjó í Reykjavík. Sem kunnugt er, veit enginn nákvæmlega, hver örlög hans urðu. En það er önnur saga.
Á þessum tíma var Unnur í gift sjómanni og átti tvö börn á unga aldri. Maður hennar var á sjónum og hún gat ekki fengið neinn, til að líta eftir börnunum, þegar útför Jóns skyldi gerð. Eitthvað hafði hún ámálgað þetta við kunningja sína. Svo mikið er víst, að rétt áður en útförin skyldi hefjast, er bankað hjá henni. Þegar hún kemur til dyra stendur Steinn Steinarr þar. Hafði hann enga vafninga á, heldur ýtti Unni til hliðar og gekk inn, um leið og hann sagði: Það er best þú farir". Fleirir voru þau orð ekki, en Steinn sat yfir börnum Unnar, meðan hún fylgdi Jóni Pálssyni frá Hlíð hinsta spölinn.
Ég veit ekki hvað þetta segir öðrum. En með tilliti til vináttu Steins og Jóns, þykir mér þetta lýsa bældri hjartahlýju.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Sæll frændi góður. Fá skáld eru mér jafnkær og Steinn. Sennilega er flest rétt sem þú segir um persónu hans og manngerð. Sérstaklega um meinhæðnina. Líka í banalegunni sem varð allt of snemma eins og títt er um snillinga. Steinn þurfti blóðgjöf í banalegunni. Hann sætti sig við hana og sagði að hún væri í lagi svo lengi sem hann fengi ekki blóð úr ónefndri skáldkonu. Bestu kveðjur og takk fyrir síðustu veislu.
Sigurður Sveinsson, 27.1.2008 kl. 11:48
Kannski hefur það haft eitthvað að segja að Steinn var alkóhólisti. Lestu bókina um Káinn (K.N), hún hefur marga skemmtilega punkta um þennan snilling að geyma.
Heimir Tómasson, 27.1.2008 kl. 14:29
Komdu sæll Pjetur. Ég má til að segja svolítið frá Steini - sem ég þekkti ekki og sá aldrei. Hann tengdist fjölskyldu minni svolítið af því að hann vann með föðubræðrum mínum í síldarverksmiðjunni á Sólbakka í Önundarfirði. Þetta hlýtur að hafa verið milli styrjaldanna. Steinn var víst liðleskja en það var samt svermað fyrir honum. Hann hlýtur að hafa verið orðinn svolítið frægur því föðurfólkið mitt vildi endilega bjóða honum ií sunnudagskaffi. Það var lagt á borð og föðursystur mínar biðu spenntar eftir þessum gesti (sagði ein þeirra mér). Han mætti ekki og sagði seinna við bræðurna að hann ætti ekki nógu fín föt til þess að fara í svona boð.
Ekki lét sú föðursystir mín sem sagði söguna það á sig fá en bauð Steini í bíó þegar hún hitti hann á förnum vegi í Reykjavík. Þau mæltu sér mót. Þar beið föðursystir mín fyrir utan langa stund og ekki kom Steinn. Fjárinn, hugsaði hún, ég læt ekki bjánann hafa af mér bíóferðina. Keypti miða og gekk í salinn. Þar sat Steinn á fremsta bekk, glottandi. Sagðist vera að gera henni greiða, reiknaði ekki með að hún vildi láta sjá sig með honum!
sigurlaug (IP-tala skráð) 27.1.2008 kl. 14:33
Sæl Sigurlaug.
Bestu þakkir fyrir skemmtilegt svar. Ég vil gjarnan fá sem mest af slíkum sögum. Þær varpa fram mynd af Steini og hafa gildi sem slíkar.
Pjetur Hafstein Lárusson, 27.1.2008 kl. 15:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.