Steinn Steinarr III

Steinn steinarr var ekki aðeins með okkar bestu ljóðskáldum; hann var og hagur á óbundið mál.  Síðustu æviárin bjó hann ásamt konu sinni, Ásthildi Björnsdóttur, suður í Fossvogi.  Ráku þau þar lítilsháttar hænsnabú, sem ekki var fátítt á þeim árum umhverfis bæinn.  Einnig herbergjuðu þau hundtík, en slík var á þeim tímum í trássi við reglur Reykjavíkurborgar þar um.

Nú voru góð ráð dýr, þau hjónin vildu hvorki láta tíkina, né brjóta veraldleg lög og reglur.  Var því brugðið á það ráð, að skrifa bæjarráði bréf, sem stílað var á Gunnar Thoroddsen borgarstjóra.  Bréfið birtist í heildarsafni Steins árið 1964 og fer hér á eftir:

„Gunnar Thoroddsen, borgarstjóri.

Það er upphaf þessa máls, að við undirrituð eldri hjón, til heimilis að Fossvegsbletti 45 við Sléttuveg í Reykjavík, höfum undanfarin 2 ár haldið hundtík eina, mórauða og gamla nokkuð.  Vel er okkur ljóst, að slíkt uppátæki stríðir í móti lögum og rétti þess bæjarfélags, hverju við tilheyrum.  En allt um það höfum við, svo sem oft vill verða, bundið nokkurn kunningsskap og jafnvel vináttu við þetta fátæklega kvikindi, svo og það við okkur, eftir því, sem næst verður komizt.

Nú höfum við síðustu daga orðið þess greinilega vör, að æðri máttarvöld hyggjast láta til skarar skríða gegn hundtík þessari, og sjáum við ekki betur en að í nokkurt óefni sé komið.  Þess vegna spyrjum við yður, herra borgarstjóri, hvort þér getið í krafti embættis yðar og þó einkum af yðar snotra hjartalagi veitt okkur nokkra slíka undanþágu frá laganna bókstaf, að við megum herbergja skepnu þessa, svo lengi sem henni endist aldur og heilsa.  Við viljum taka það skýrt fram, að tíkin er hógvær og heimakær, svo að einstakt má kalla nú á tímum.  Hún er og sérlega meinlaus af sér, og köllum við það helzt ljóð á hennar ráði, hvílík vinahót hún auðsýnir öllum, kunnugum sem ókunnugum.  En kannski veit hún betur en við, hvað við á í slíkum efnum, og skal ekki um það sakazt.

 

Með vinsemd og virðingu

 

Reykjavík 18.1.1957

Steinn Steinarr

Ásthildur Björnsdóttir "

 

Ja, skyldi ekki margur þyggja þá friðsemd, sem fram kemur í þessu bréfi til borgarstjóra Reykjavíkur?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Líklega grunaði hann ekki hvað hann átti sjálfur stutt eftir þarna. Fékk hann undanþáguna    Kær kv. E.

Edda (IP-tala skráð) 25.1.2008 kl. 17:34

2 Smámynd: Pjetur Hafstein Lárusson

Blessuð Edda.

Ég býst nú ekki við öðru, en sá kúltúrmaður Gunnar Thoroddsen hafi fallið flatur fyrir þessu bréfi og þau hjón þar af leiðandi haldið tíkinni. En til að staðfesta þetta ætla ég að hafa samband við Borgarskjalasafn eftir helgi.

Kær kveðja 

Pjetur Hafstein Lárusson, 26.1.2008 kl. 13:27

3 Smámynd: Ragnar Tómasson

Þetta bréf er tær snilld. Af mörgum góðum bréfum og tilskrifum sem ég hef lesið um ævina er þetta það snjallasta. Það er mikil kúnst að biðja embættismann ásjár, sér í lagi þegar óskað er eftir stuðningi við ólögmætt athæfi (hundahald)!

Ég þarf ekki að velta því fyrir mér viðbrögðum borgarstjórans. Gunnar Thoroddsen var bæði mikill embættismaður en einnig listamaður og húmoristi. Þetta bréf Steins hefur án vafa verið hundsins Höfuðlausn.

Ragnar Tómasson, 2.2.2008 kl. 00:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband