18.1.2008 | 21:44
Steinn Steinarr I
Hann hét Aðalsteinn og var skráður Kristmundsson, hvort sem það á við rök að styðjast, eða hitt er sannara, að eitthvað hafi verið til í gróusögum fyrir vestan um faðerni drengsins. En svo mikið er víst, að hvorki verður úr því skorið, né heldur skiptir það máli. Hitt er nokkurs um vert, að þegar piltur þessi óx úr grasi, hneigðist hugur hans til skáldskapar. Tók hann sér þá skáldanafnið Steinn Steinarr.
Í ár er liðin öld frá fæðingu Steins, en hann fæddist á Laugalandi í Nauteyrarhreppi, vestur við Ísafjarðardjúp þann 13. október árið 1908. Ekki náði Steinn Steinarr háum aldri; hann lést í Reykjavík 25. mai 1958 og er því, auk aldarafmælisins, fimmtugasta árstíð hans í ár. Þá er þess og að geta, að höfuð verk hans, ljóðaflokkurinn Tíminn og vatnið, kom út í árslok 1948 eða fyrir sextíu árum. Raunar segja sumir, að nokkur vafi leiki á því, hvoru megin áramótanna ljóðaflokkurinn hafi komið út. Flestir hallast þó að því, að það hafi verið fyrir áramót. En um það gildir hið sama og um faðernið; það skiptir ekki máli. Hitt er meira um vert, að íslenskur skáldskapur er annar eftir útkomu Tímans og vatnsins en fyrir hana, og höfðu þó ýmis ljóð þess bálks birtst áður.
Steinn Steinarr hefur haft meiri og djúpstæðari áhrif á íslenskar bókmenntir, en margur hyggur. Um það má deila, hvort bókmenntir móti tíðarandann eða mótist af honum. Sjálfur hallast ég að því síðar nefnda. En það breytir ekki því, að Steinn Steinarr er á sinn hátt, tákngervingur okkar tíma. Hann er spegilmynd þeirra þúsunda, sem yfirgáfu þýfða túnbleðla forfeðranna og þá mýrafláka, sem vætt höfðu fætur þeirra um aldir, til þess, að freista gæfunnar í litla borglíkinu suður við Faxaflóa. Upp frá því var hann gestur Reykjavíkur og barn hennar í senn; næmt eyra hennar og þrjóskufull rödd.
Það má ekki minna vera, en ég freisti þess, að varpa nokkurri mynd á Stein Steinarr í þeim skrifum mínum, sem hér birtast þetta árið. Það nægir nefnilega ekki, að taka ofan fyrir slíkum mönnum, þegar þá ber fyrir augu með einum eða öðrum hætti, og halda svo áfram göngunni, eins og ekkert hafi í skorist.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Steinn Steinar var fyrsta skáldið sem ég lærði ljóð eftir utanað - stundum ósjálfrátt og stundum af hreinni þörf og ekki samkvæmt fyrirmælum. Ég vona að þú standir við þessa yfirlýsingu.
María Kristjánsdóttir, 19.1.2008 kl. 10:39
Ég lærði ljóð hans í skóla, Hjörtur bróðir hans var skólastjóri í Breiðagerðisskóla þegar ég var þar, og bárum við krakkarnir ómælda virðingu fyrir honum. En hvort sem það er tilviljun eður ei, var Stein Steinarri gert hátt undir höfði í kennslunni og lærði ég mörg ljóða hans utan af .Frábært skáld .
Frikkinn, 19.1.2008 kl. 11:52
Já hann var snillingur. Var með þetta allt. Fullkomin tök á öllum bragarháttum og fráskila skáldagáfu.
Þorsteinn Sverrisson, 19.1.2008 kl. 20:40
Góður pistill hjá þér Pjetur!
Júlíus Valsson, 20.1.2008 kl. 13:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.