1.1.2008 | 15:02
Nýarsdagur 2008
Ár gula plastpokans er liðið. Því kalla ég árið 2007 þessu nafni, að þá féll loks dómur í s.k. Baugsmáli. Merkilegt var að sjá í sjónvarpi, hvernig Jón Ásgeir Jóhannesson skeiðaði inn í dómsalinn með gulan plastpoka frá Bónus, að því er virtist, fullan af málsgögnum í þessu fræga sakamáli.
Nú gefur það augaleið, að sakborningur hefur ekkert að gera í dómssal með málsgöng; verjandi hans sér um þá hlið mála. En þessi réttarhöld höfðu ekkert með réttarfar að gera, þau voru leiksýning. Og guli plastpokinn var leikmunur og táknrænn sem slíkur. Hann átti að undirstrika það, að sá sem hann bar, væri maður fólksins; verslaði í Bónus eins og við hin. Þar fór ekki einkaþotumaður heldur alþýðan holdi klædd. Og það merkilega er, að alþýðan virðist ekki átta sig á þeim einföldu sannindum, að leikrit er ekki veruleikinn heldur blekking. Sú staðreynd, að Jón Ásgeir hlaut dóm hefur gjörsamlega vikið fyrir töframætti gula plastpokans.
En fleira bar við á árinu. Þeir vinstri flokkar og flokksbrot, sem forðum tíð, geystust inn á vettvang stjórnmálanna undir gunnfána jafnaðarstefnunnar og tóku upp hið óljósa nafn Samfylking", gerðust nú prúðar stássmeyjar og fylgisveinar í borðstofu íhaldsins. Ef til vill var ekki annar leikur í stöðunni, eins og stundum er sagt. En skelfing eru þetta dapurleg örlög, nema auðvitað að stóru orðin um jöfnuð í samfélaginu, hafi aldrei verið til annars sögð, en að þenja út nasirnar. Hver veit?
Þirðju stórtíðindi ársins 2007 voru svo auðvitað fall borgarstjórnar íhalds og maddömmu Framsóknar. Allir vita, að sá borgarstjórnarmeirihluti hrundi á árinu, en tildrögin eru óljós. Hvers vegna í ósköpunum hefur nýji meirihlutinn stofnað til fjárfestingaævintýris við virkjanir úti í heimi, ef það var svona skaðlegt, að gamli meirihlutinn gerði slíkt hið sama? Spyr sá, sem ekki veit.
En svona eru stjórnmálin orðin; þau snúast um framapotara en ekki almenning, praktík" en ekki hugsjónir. Og við því er ekkert að gera, annað en óska lesendum gleðilegs árs.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
kannski það sé í verkahring lögmanns að bera plastpokann í dómssalinn. þó hef ég þurft að standa í slíku, að hafa lögmann á mínum snærum og mæta í dómssali. þar vann ég sjálfur mikla vinnu og gróf upp gögn. veit ekki hvort sú vinna skipti sköpum, en sigurinn var minn.
Brjánn Guðjónsson, 1.1.2008 kl. 19:59
Tókstu ekki líka eftir því að Ingibjörg, nú eiginkona Jóns Ásgeirs var með álíka troðinn poka, appelsínugulan Hagkaupspoka. Tilviljun!
Pétur (IP-tala skráð) 2.1.2008 kl. 14:44
Ég held að Jón Ásgeir og frú hafi verið með nestið sitt í pokunum, þó hann drægi einhver blöð upp úr þeim; sennilega voru það nú bara innkaupalistar.
Er það ekki sérgrein Ingibjargar að þenja út nasirnar? Það hefur mér sýnst í sjónvarpsviðtölum.
Og nú hallar Framsókn sér að kirkjunni; gæfulegt hjónaband það!
Greta Björg Úlfsdóttir, 2.1.2008 kl. 14:55
...og samkynhneigt, í ofanálag!
Greta Björg Úlfsdóttir, 2.1.2008 kl. 14:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.