Öld frá fæðingu Vilhjálms frá Skáholti

 

Nú í morgun flutti Ríkisútvarpið ágætan þátt Gunnars Stefánssonar til minningar um Vilhjálm frá Skáholti. Mér þótti það að vísu dálítið undarlegt, að Gunnar skyldi í upphafi þáttarins láta þess getið, að Villi frá Skáholti teljist ekki meðal höfuðskálda þjóðarinnar. Má vissulega vera, að satt sé. En það breytir ekki því, að enn leggur þann ilm úr hinni ljóðrænu blómakörfu þessa sérstæða skáld, utangarðsmanns og blómasala, sem unun er að njóta. Látum svo tímann um að skera úr um það, hvernig skipað er til sætis við veisluborð í höllu Braga.

Það var nokkuð lunkið hjá Gunnari, að benda á það, að Villi frá Skáholti hafi verið skáld Hafnarstrætis, en eins og kunnugt er, var siðgæðið þar „stundum eins og hurð á hjörum". Á meðan spókaði Tómas Guðmundsson sig um á Austurstræti, og blandaði geði við þá, sem ef til vill töldu sig hafa efni á því, að líta niður á syni og dætur Hafnarstrætis. Og segir raunar ósköp lítið, bæði um Villa frá Skáholti og Tómas. En eftir á að hyggja; skyldi Steinn Steinarr þá ekki hafa verið skáld Lækjartorgs, en á því torgi mætast sem kunnugt er, Hafnarstræti og Austurstræti?

Ástæða þess, að þessi þáttur var fluttur, er sú, að í gær, 29. desember, var liðin öld frá fæðingu Vilhjálms frá Skáholti, en hann lést af slysförum þann 4. ágúst 1963. Árið 1992 gaf Hörpuútgáfan út heildarsafn ljóða Vilhjálms, Rósir í mjöll", nefnist bókin, sem Helgi Sæm. bjó til prentunar, auk þess að rita ágætan inngang. Full ástæða er til að vekja athygli á þeirri bók, sem og því, að þáttur Gunnars Stefánssonar um Vilhjálm frá Skáholti verður endurtekinn að kvöldi þriðjudagins 12. febrúar n.k.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Vilhjálmur var sérstakur maður og gott skáld. Hann spjallaði oft við okkur krakkana í miðbænum en hann bjó í lítilli kompu í Kirkjustrætinu við Landsímahúsið. Ansi oft var kaupstaðalykt af honum. Við söknuðum hans úr bæjarlífinu þegar hans naut ekki lengur við.

Júlíus Valsson, 30.12.2007 kl. 19:22

2 identicon

Þakka þér fyrir Pjetur, þetta fór alveg framhjá mér. Ég man vel eftir Vilhjálmi frá Skáholti á árunum eftir 1950. Þegar maður mætti honum á Laugaveginum átti hann það til að stoppa mann og rétta út höndina eins og hann ætlaði að fara að blessa mann og fór þá oft með kvæði. Í útliti minnti hann mig á Einar Ben. - En það sem er yndislegast við Vilhjálm er upplestur hans sjálfs á eigin ljóðum sem kom út á 45 snúninga plötu hjá ensku Parlophono útgáfunni (óvitað hvenær). Þessi upplestur er algjör perla og slær alveg út upplestur annara skálda eins og t.d. Steins Steinars.

Svanur Jóhannesson (IP-tala skráð) 31.12.2007 kl. 12:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband