13.11.2007 | 22:20
Leiguhúsnæði er lausnin
Þessa dagana fjargviðrast menn mikið yfir því, sem kallað er húsnæðisvandi. Sannleikurinn er þó sá, að það er ekki til neitt, sem heitir húsnæðisvandi á Íslandi. Ef sá vandi væri til staðar, væri í fyrsta lagi skortur á byggingalandi, í öðru lagi skortur á byggingarefni og í þriðja lagi skortur á vinnuafli til húsbygginga. Ekkert af þessu er tilfellið.
Vissulega á lágtekjufólk og þá sérstaklega ungt fólk, við vanda að glíma, hvað varðar húsnæðismál. En sá vandi er afleiðing, ekki orsök. Orsakanna er að leita í vaxtaokri bankanna, alltof háu húsnæðisverði og skorti á leiguhúsnæði.
Séreignastefnan í húsnæðismálum er jafn gömul þéttbýlismyndun á Íslandi. Þeir sem áður höfðu verið leiguliðar til sveita, lögðu metnað sinn í að vera sjálfra sín hvað húsnæði varðaði, eins og það var kallað. Verkamannabústaðirnir og annað félagslegt húsnæði voru undantekningin, sem sannaði regluna. Bjartur í Sumarhúsum gekk ljósum logum og gerir enn. Hann var bara kominn ofan af heiðinni og sestur að við strönd hins ysta hafs.
Þarna kemur til kasta almannafulltrúanna á Alþingi. Þeir eiga þegar í stað, að samþykkja lög, sem gera Íbúðalánasjóði kleift að lána sveitarfélögum, byggingasamvinnufélögum og verktökum fé á föstum lágmarksvöxtum, gegn því að viðkomandi aðilar reisi leiguíbúðir og leigi þær út á lægsta mögulega verði og tryggi íbúum fasta og örugga búsetu, svo lengi sem þeir greiða leiguna og uppfylla almenn skilyrði um umgengnishætti. Þannig yrði skapaður leigumarkaður á Íslandi, eins og tíðkast í siðmenntuðum löndum. Kaupverð á húsnæði mundi lækka til muna.
Vilji er allt sem þarf.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:26 | Facebook
Athugasemdir
Verð á leiguhúsnæði mun alltaf endurspegla hvað það kostar að kaupa húsnæði. Ef húseigendur mega ekki hækka leiguna þá hætta þeir að viðhalda húsnæðinu og það breytist í "slum".
Ef leiguverð á að vera skaplegt á meðan húsnæðisverð helst hátt, þá verður alltaf um að ræða niðurgreiðslu eða ríkisstyrki af einhverju tagi.
Þá má spyrja sig hvort það eigi að styrkja fátæklingana til að kaupa eða leigja?
Ég er ekki viss, en mér hefur sýnst leiguhúsnæði í Evrópu vera á útleið frekar en , flestir vilja eignast sitt eigið, jafnvel í "sósíalistalöndum" eins og Danmörku.
Hafandi sagt það, þá hefur leiguhúsnæði marga kosti, það er mikil vinna að vera húseigandi og hvers vegna ættu menn ekki að sérhæfa sig í henni? Einn maður sem sér um 20 íbúðir hlýtur að geta gert betra samkomulag við smiði og pípara en ég...
Við leigðum 4 ár í okkar búskap og það var yndislegt! Ísskápar og sturtur gerðu við sig sjálf :)
Kári Harðarson, 14.11.2007 kl. 09:28
Ein leið við að lækka húsnæðisverð væri kannski ef ríkið borgaði fyrir hraðlest í nýtt hverfi sem væri vel út úr bænum, en byggt í kringum lestarstöð. 5 mín labb og 10 mín í hraðlest og þú værir kominn niður í bæ þar sem þú geymir bílinn þinn í einhverri bílageymslu...
Niðurgreiðsla ríkisins væri þá í reynd fjárfestingin i hraðlestinni. Selfoss, anyone?
Kári Harðarson, 14.11.2007 kl. 09:31
Mér líst vel á þá hugmynd, enda á ég hús á Selfossi.
Sigurjón, 14.11.2007 kl. 18:03
Mér líst vel á hugmyndir Kára, hann er maður með frjóa og frumlega hugsun. Mér finnst alveg (og löngu) orðið tímabært að við förum að fjárfesta í lestakerfi - eða hvað á það til dæmis að þýða að troða öllum túristum sem til landsins koma inn í rútur fyrir utan Leifsstöð, í stað þess að þeir geti hoppað upp í lest, eins og alls staðar annars staðar (í Evrópu alla vega)? Var að koma til landsins í gær og maður hreinlega fer hjá sér að upplifa þessa sveitamennsku hér.
Greta Björg Úlfsdóttir, 16.11.2007 kl. 09:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.