Hræðsluþjóðfélagið

Það er ekki laust við, að grein Agnesar Bragadóttur í Mogganum í dag, sé nokkuð hrollvekjandi lesning. „Hræðsluþjóðfélagið" kallar Agnes greinina og fjallar þar um þann vaxandi vanda, að fólk þori ekki að koma fram í fjölmiðlum undir nafni.

Þannig bendir hún á, að umræður um kvótasvindlið og grunsamlega verslunarhætti s.k. lágvöruverslana fari nær alfarið fram undir nafnleynd. Það sama gildi um málefni orkufyrirtækjanna.

Það sér hver maður í hendi sér, að hér á sér stað hröð þróun frá lýðræði í átt að alræði peningaaflanna. Hvað veldur? Þar kemur vafalaust margt til. Eitt er það, að almenningur virðist álíta það sérstaklega aðdáunarverðan dugnað að safna peningum. Gott ef það telst ekki gáfumerki. Svo kemur hitt til, að margir almannafulltrúar virðast ekki telja það í sínum verkahring, að skipta sér af stjórnmálum. Fyrir þessu fólki er Alþingi ekki löggjafarsamkoma, heldur leiksvið. Skuggalegast af öllu, í þessu samhengi, er þó, þegar almannafulltrúar, jafnt þingmenn sem sveitastjórnarmenn þora ekki að koma fram opinberlega, heldur leynast í skjóli nafnleyndar á síðum blaðanna og öldum ljósvakans. Til hvers var þetta fólk að bjóða sig fram til almannaþjónustu?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta hefur þróast hægt og hægt. Fáir tóku eftir í fyrstu og svo dofnaði þjóðin smám saman eins og ævinlega verður. Nú er þetta orðinn sjúkdómur heillar þjóðar,-sennilega ólæknandi.

Árni Gunnarsson, 12.11.2007 kl. 23:52

2 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Ég held ekki að þetta sé ólæknandi, enda er ég ólæknandi bjartsýn. Það að Agnes skuli vera farin að ræða þetta virðist vera einn þátturinn í ákveðinni umræðu sem hefur átt sér stað um fjölmiðla innan blaðamannastéttarinnar undanfarið sumt hefur verið á lokuðum fundum en hún hefur aldrei verið hrædd..

María Kristjánsdóttir, 13.11.2007 kl. 00:17

3 identicon

Á meðan lofsöngvakórinn söng sem skærast í Mogganum á Davíðstímanum er kannski ekki nema eðlilegt að niðurbældur andardráttur þjóðarþöggunar hafi farið framhjá næmum eyrum Agnesar.

Nú tíðkast ekki háværir lofsöngvar um stjórnmálaforingja enda hafa aurgoðar tekið af þeim mestöll völd.

Auðvitað er það slæmt að fólk skuli vera hrætt við peningafurstana, en hitt var verra meðan fólk óttaðist stjórnmálamenn sem það sjálft kaus yfir sig - og höfðu á snærum sínum pólitíska handrukkara eins og Hannes Hólmstein, Matthías Jóhannesen o.fl. o.fl.

Þráinn Bertelsson (IP-tala skráð) 13.11.2007 kl. 03:02

4 identicon

Það er vanþekking sem gerir það að verkum að almenningur er hræddur eða þá sléttsama. Fólk virðist ekki fylgjast með því sem er að gerast, fjölmiðlar auðmanna stjórna þeim upplýsingum sem berast og samlíkingar Þráinns hér að ofan er grín í ljósi skrifa hans undanfarin ár um þá sem greiða honum launin.Þráinn ætti að skammast sín fyrir að setja samfélagið í þessa einföldu mynd því mynd hans hefur haft áhrif á vinstrimenn og hún hefur afvegaleitt almenning. Hannes Hólmsteinn hefur verið álíka áhrifagjarn og Þráinn. Að bera þá saman við Matthías er hinsvegar ekki hægt.

Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 13.11.2007 kl. 07:51

5 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Tek heilshugar undir þessi orð með að ísland er orðið "Hræðsluþjóðfélag"

Kjartan Pétur Sigurðsson, 13.11.2007 kl. 07:55

6 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Hún er alls ekki einkennandi fyrir Ísland, þessi fóbía. Hún byrjaði ekki á Íslandi. Það er nefnilega ekki hægt að kópíera allt utanfrá án þess að fá með þá ágalla sem fylgja.

Hræðsla við höfundanöfn (nafnleynd eða nafnleysi er fóbíumál) er einmitt svona fóbía. Málið snýst á endanum alltaf um hvað er verið að ræða, ekki bara hver er að segja hvað. Tal um "aumingja udir nafnleynd" er klárlega að miiklu leyti þeir sem ekki vilja gagnrýni -að fá hana. Auðvitað er ekki hægt að gagnrýna hvað sem er undir nafni. Því þá förum við að tala um útskúfun.

Ólafur Þórðarson, 13.11.2007 kl. 13:33

7 identicon

Persónulega treysti ég flestum fyrirtækjum/auðmönnum betur heldur en pólitíkusum. Í markaðslýðræðinu eru daglegar kosningar og meðvitaðir viðskiptavinir geta alveg losað sig við auðveldi ef viljinn er nógu sterkur. Einu veldin sem þessi lögmál gilda ekki um eru þau sem "verra lýðræðið" skapar eða verndar með löggjöf.

En jú það verður að viðurkennast að spilling fylgir alltaf manninum og því sleppa einkafyrirtækin ekki, en pólitíkusar eru ekkert minni menn þó þeir láti photoshopa sig á 4 ára fresti. 

Geiri (IP-tala skráð) 13.11.2007 kl. 18:05

8 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Orð í tíma töluð... ,,Hræðsluþjóðfélag"

Guðrún Magnea Helgadóttir, 13.11.2007 kl. 18:14

9 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Við Pjetur hræðumst nú hvorki sár né bana!

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.11.2007 kl. 21:17

10 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Já, hugrekki er alltaf aðdáunarverður eiginleiki.  Að hluta til gæti skýringin legið í því að í umræðu umdeildra mála eru oft einhverjir sem fara yfir strikið og byrja persónuárásir og sleggjudóma. Það er þetta at sem fólk vill gjarnan forðast. Þetta er líka spurning um að þróa umræðuhefð og leikreglur umræðu. Kannski er þetta til vitnis um að pólitísk umræða á Íslandi er ekki þróuð þegar allt kemur til alls heldur vanþróuð og í raun leidd áfram af pólistískum leiðtogum og ati þeirra en ekki sjálfsprottin úr frjóum jarðvegi meðal almennings?

Ragnar Geir Brynjólfsson, 13.11.2007 kl. 21:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband