23.10.2007 | 21:14
"Frjáls" áfengissala?
Já, gott er nú blessað ölið og rauðvínið ekki síðra, sé þess hóflega neytt. En jafn augljóst og það er, að hóflega drukkið vín gleður mannsins hjarta, þá er hitt og víst, að sé þess neytt í óhófi, hlýst af ómældur skaði. Sér í lagi á þetta við, þegar börn og unglingar drekka. Þá þarf ekki mikið magn, til að valda slíkum bágindum, að trauðla verði úr bætt.
Þrennt er það, sem flestir hafa verið sammála um, varðandi áfengisstefnu Íslendinga. Í fyrsta lagi, að bannað skuli að auglýsa áfengi, í öðru lagi, að áfengi skuli vera nokkuð dýrt og í þriðja lagi, að ríkið skuli hafa einkarétt á áfengisútsölu.
Nú hafa 17 þingmenn lagt til á alþingi, að sala sterks öls og léttra vína, skuli leyfð í almennum verslunum. Í raun þýðir þetta, að megnið af þessari áfengissölu færist yfir til Bónus og Hagkaupa, ef af verður. Samkvæmt lögum má enginn afgreiða áfengi, nema hann hafi náð tuttugu ára aldri, en eins og allir vita, er stór hluti matvælaverslunar á Íslandi, sérstaklega þó Bónus, rekinn með vinnu barna. Ætla menn að láta þau selja áfengið eða á ef til vill að fara að greiða mannsæmandi laun í þessum verslunum, þannig að fullorðið fólk fáist til að vinna þar?
Varla dettur nokkrum manni í hug, að kaupmenn, sem selja áfengi, muni ekki auglýsa það með einum eða öðrum hætti, hvað sem öllum lögum líður. Og þeim auglýsingum mun fyrst og fremst verða beint að börnum og unglingum. Reynslan sýnir einfaldlega, að margir þeirra, sem viðskipti stunda, virða barnssálina einskis. Sjáið bara bankana! Það þarf heldur ekki að efast um það, að kaupmenn kæmu til með að halda áfengisútsölur til að trekkja söluna. Sjálfur hef ég orðið vitni að því, að unglingar sem unnu á hóteli, sumir undir lögaldri, fengu áfengi sent frá innflytjendum, til að halda veislur.
Stuðningur heilbrigðisráðherra við frumvarpið er hans mál. En þegar hann kemur í fjölmiðla og lýsir þeirri skoðun sinni, að aukið aðgengi að áfengi muni draga úr neyslunni, þvert á reynslu allra, sem til þekkja, þá er það ekki lengur hans mál. Það er undrunarefni.
Annað er það, sem menn hafa lítt leitt hugann að í þessu sambandi. ÁTVR hefur haldið uppi vaxandi vöruúrvali í verslunum sínum. Það þurfa ekki lengur allir að drekka sömu tvær eða þrjár rauðvínstegundirnar eins og var í gamla daga. Flestar matvöruverslanir landsins eru hins vegar magnverslandir en ekki gæða, eins og t.d. má sjá á bóksölu Bónus fyrir jól. Slíkar verslanir kæmu aðeins til með að selja það öl og léttvín, sem mest selst. Væri það til bóta fyrir þá, sem vilja drekka rauðvín með helgarsteikinni
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Mér datt svona í hug, verði þetta sullumbull að lögum, þá mætti gjarnan útbúa sérstaka plastpoka undir Bónusbjórinn og 10-11 12%a rauðvínsbeljurnar, hvar á væru myndir prentaðar af þingmönnum þeim, er að frumvarpinu standa. Það yrði þeim og landsmönnum öllum stöðug og þörf áminning þess, hve mikil nauðsyn er á þingmönnum, er í vöku sem svefni huga eingöngu að hag almennings og hvað honum sé fyrir bestu... kv.
Ásgeir Kristinn Lárusson, 23.10.2007 kl. 21:53
Með það að verslanir þurfi að láta börn afgreiða áfengi, þá væri hægt í verslunum að hafa bara 2-3 kassa sem geta bara afgreitt áfengi þar sem væru þá fólk yfir aldri. Veit ekki hvort þetta myndi ganga eitthvað en þetta er nú líka bara hugmynd.....
Ólafur Ingi Bergsteinsson (IP-tala skráð) 23.10.2007 kl. 22:14
Það er búið að útjaska svo orðinu frelsi að maður hugsar sig um tvisvar áðuren maður tekur sér það orð í munn. Mér finnst þessi yfirlýsing heilbrigðismálaráðherra grafalvarlegt mál og lýsir ekki mikilli þekkingu á áfengissjúkdómnum eða heilbrigðiskerfinu þarsem menn velta fyrir sér hverri krónu - eða hvar ætlar hann að fá fé í forvarnir? Ég tek undir þessa góðu hugmynd hans Ásgeirs.
bendi svo á mitt blogg þarsem ég velti upp enn einni hlið- semsé þeirri hvað stórverslanir eru leiðinlegar!
María Kristjánsdóttir, 23.10.2007 kl. 22:25
Það mætti halda að þið sem reynið að verja þessa óþolandi forræðishyggju hafið aldrei farið yfir pollinn eða séuð í algjörri afneitun að lang algengasta viðhofrið til víns er að það er venjuleg neysluvara eins og hvað annað eða er vínbændur evrópu að rækta eiturlyf? Það hljomar þannig hjá ykkur þremur hér að þegar þið fóruð síðast til evrópu, ef þið hafið farið þangað, að þið hafið legið dauadrukkin einhversataðar af því að þið gátuð keypt brennivín í næstu sjoppu? Ég kaupi ekki sona kjaftæði.
Guðmundur Geir Sigurðsson, 24.10.2007 kl. 09:14
Heyrðu Gvendur minn Geir! Auðvitað eru þessir ,,vínbændur" sem þú kallar svo ekkert annað en eiturlyfjaframleiðendur. Alkóhól er nefnilega sterkt og hættulegt fíkniefni, rétt eins og kannabis, heróín, kókaín, amfetamín og fleira. Þeir sem ekki vilja sjá það eða skilja eru í raunverulegri afneitun og varla viðræðuhæfir þegar þessi mál ber á góma. Þá ber þess að geta, að áfengisneysla fólks hefur í för með sér gífurlegan kostnað í heilbrigðiskerfinu, suman sýnilegan, annann ósýnilegan.
Jóhannes Ragnarsson, 24.10.2007 kl. 13:16
Trúi ekki mínum augum,er enþá til fólk sem hugsar eins og hann Jóhannes???
Sigurbjörg Sigurðardóttir, 24.10.2007 kl. 17:44
Neysla og sala á áfengi er löglegt hérna á landi og þá á það að vera sjálfsagður réttur kaupmanna að selja það rétt eins og sala á tóbaki er frjáls en þrátt fyrir það eru vindlingarnir faldir ofaní einhverjum ósýnilegum hyrslum undir borði kaupmannsins.... Af hverju er ekki allur löglegur söluvarningur uppi á búðarborðunum kaupmanna og þeir kaupmenn sem vilja selja fái hann til sölu???
Guðrún Magnea Helgadóttir, 24.10.2007 kl. 17:53
Jú, Sigurbjörg S. það er til fullt af fólki eins og Jóhannes, eða ætti ég frekar að segja fólk með sömu skoðanir og Jóhannes hvað varðar vímuefni. Það eru til sögulegar skýringar á því af hverju áfengi er löglegt vímuefni (og sannarlega er áfengi vímuefni), ef það kæmi fram í dag væri það líklega ekki lögleitt vegna skaðsemi efnisins. Halda menn virkilega að manneskja sem notar segjum hass í litlu magni einusinni til tvisvar í mánuði verði fyrir skaða, eða sé fíkill, auðvitað ekki og eins er farið með flest vímuefni - sem fólk kallar stundum harðari efni. T.d. er morfín frábært lyf, en mikið misnotað. Um öll þessi efni eru lög og reglugerðir vegna þess að þau eru stórhættuleg séu þeirra neitt í miklu mæli, sum eru bönnuð - önnur seld undir ströngu eftirliti.
Sveinbjörn Þ (IP-tala skráð) 24.10.2007 kl. 21:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.