13.10.2007 | 20:57
Skopleikur eða alvara við Tjörnina?
Atburðir síðustu daga í Reykjavík, eru kennslubókardæmi um uppivöðslusemi viðskiptalífsins á kostnað almennings og getuleysi almannafulltrúa til að standa vörð um hag borgaranna.
Greinilegt er, að umboðsmenn almennings í stjórn Orkuveitunnar hafa ekki haft hugmynd um, hvað þeir voru að samþykkja, nema auðvitað Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins. Hann kemur nú fram sem sakleysið uppmálað, eftir að hafa verið staðinn að því, að reyna að hygla fyrrum kosningastjóra flokksins sérstaklega í þessu sambandi.
Merkilegt er, að leynisamningurinn, sem tryggja átti REI 20 ára einkarétt á verkefnum Orkuveitunnar erlendis sem og fulla þjónustu Orkuveitunnar, var lagður fyrir stjórnarmenn Orkuveitunnar á ensku. Þeir eru allir Íslendingar, sem og þeir sem að Rei standa. Hvers konar leikaraskapur er hér á ferð?
Svo er að sjá, sem borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins, að fráfarandi borgarstjóra undanskildum (hann er fulltrúi í stjórn Orkuveitunnar) hafi verið haldið utan við málið og þeir ekki vitað neitt. Það er slæmt, að stjórnmálamaður, sem jafn gott orð hefur farið af og Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni skuli í raun ljúka pólitískum ferli sínum með þessum hætti. Og menn spyrja sem von er: Hvers vegna?
Svarið virðist liggja í augum uppi; skýjaborgarsmiðunum í hópi braskara hefur tekist að slá þvílíkri glýju í augu fólks, almennings, sem og kjörinna fulltrúa hans, að menn samþykkja athugasemdalaust allt, sem frá þeim kemur. Það er ekki einu sinni gerð athugasemd við það, þegar þeir fara ránshendi um eigur almennings; allt er samþykkt. Og á ensku, til að gera málið enn skoplegra.
Viðbrögð þáverandi minnihluta í borgarstjórn við öllu þessu verða tæpast skoðuð nema í ljósi skopsins. Slík er ásókn þeirra í valdastólana, að þeir víla það ekki fyrir sér að mynda meirihluta með Birni Inga Hrafnssyni, sem forystumaður Vinstri grænna í borgarstjórn, hefur úthrópað á torgum sem spilltan stjórnmálamann. Hvar fannst sápustykki, til að skrúbba spillinguna af Birni Inga? Já, og gleymum ekki því, að fulltrúi Samfylkingarinnar í stjórn Orkuveitunnar samþykkti enska samninginn. Mun hann sitja áfram í stjórninni?
Auðvitað átti átti ganga til kosninga í Reykjavík, sem og öðrum þeim sveitarfélögum, sem þarna eiga hlut að máli. Það var hin eina lýðræðislega leið, sem möguleg var út úr ógöngunum.
Þökk sé oddvita Vinstri grænna fyrir að hafa vakið athygli alþjóðar á því, hvað þarna var á ferðinni. En það breytir ekki því, að hinn nýi meirihluti í Reykjavík á allt sitt undir Birni Inga Hrafnssyni. Er hann þess trausts verður? Sú spurning er ekki síst borin fram í ljósi þess, að allt er þetta mál hulið dimmri þoku. En ber þá ekki svo undarlega við, að í öllu þessu svartnætti, sést móta fyrir nefbroddinum á Framsóknar maddömunni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Bingi var með 3ja milljóna kaupréttarsamning eða reéttara kaupsamning á undirgengi í vasanum. Það svarar spurningunni um hvort hann er traustsins verður.
Jón Steinar Ragnarsson, 14.10.2007 kl. 01:19
Afar góð greining á málinu.
Við hljótum enn að krefjast skýringa vegna REI. Það gengur ekki að farið sé ránshendi um eigur almennings. Er engin leið að koma böndum á sökudólgana. Verður almenningur bara að kyngja því að eignum hans sé stolið?
Gunnsteinn (IP-tala skráð) 14.10.2007 kl. 12:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.