Vorkvæði um Ísland eftir Jón Óskar

Jón Óskar (1921- 1998) var eitt af öndvegisskáldum nútíma ljóðagerðar á Íslandi, fyrir nú utan þýðingar hans á frönskum ljóðum og endurminningar hans, en þær eru gullnáma fyrir alla þá, sem vilja kynnast upphafi og framrás módernismans á Íslandi.  Þetta hygg ég, að sé flestum ljóðaunnendum ljóst.  Hitt vita ef til vill færri, að hann var ekki aðeins skáld, heldur einnig liðtækur píanóleikari og spilaði m.a. djass á sínum yngri árum.  Ég er ekki frá því, að tónfallið, sem er einkenni margra ljóða hans, sé þaðan runnið, í það minnsta leyna tengslin sér ekki.  Eitt af þekktustu ljóðum hans, „Vorkvæði um Ísland", sem ort er í tilefni af 10 ára afmæli lýðveldisins og birtist í bókinni „Nóttin á herðum okkar", er gott dæmi um þetta, a.m.k. að mínu mati.  Hvað finnst ykkur?

 

Vorkvæði um Ísland

Einn dag er regnið fellur

mun þjóð mín koma til mín

og segja manstu barn mitt

þann dag er regnið streymdi

um herðar þér og augu

og skírði þig og landið

til dýrðar nýjum vonum

þann dag er klukkur slóu,

ó manstu að þú horfðir

á regnið eins og spegil

sem speglar þig og landið

í kristaltærum dropum

þann dag er lúðrar gullu

með frelsishljóm, ó, manstu

þann dag er regnið streymdi

og regnið var þinn spegill

og regnið var þitt sólskin

um herðar þér og augu

þann dag er landið hvíta

varð frjálst í regnsins örmum

og gleðin tók í hönd þér

í sólskinsörmum regnsins.

 

Einn dag er regnið fellur

mun þjóð mín koma til mín;

einn dag er regnið fellur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband