28.9.2007 | 14:30
Útlæg ger fyrir náttúruvernd
Nú berast þau undarlegu tíðindi, að lögreglustjórinn í Reykjavík, vilji koma í veg fyrir að ensk kona, sem trúlofuð er Íslendingi, fái landvistarleyfi. Mun konan hafa það sér til sakar unnið, að príla upp í krana fyrir austan, til að mótmæla átroðningi stóriðjuhölda á íslenskri náttúru. Fyrir það hlaut hún dóm og sat átta daga í svartholi íslenskrar réttvísi.
Óneitanlega er gott til þess að vita, að íslensk stjórnvöld skuli ekki vera haldin óþarfa tilfinningasemi, heldur læsa það fólk bakvið lás og slá, sem vernda vill íslenska náttúru í óþökk erlendra álfursta. Röggsöm skulu vor yfirvöld vera! Hitt er annað mál, að vilji fólk einhverra hluta vegna, setjast að á Íslandi, ætti það tæpast að teljast tiltökumál, þótt það hafi talið rimla í gluggum réttvísinnar í nokkra daga, sér til dundurs, meðan réttlætinu var fullnægt í laganna nafni, jafnvel þótt glæpurinn"sé jafn alvarlegur og náttúruvernd.
Lögreglustjórinn í Reykjavík er gæðalegur piltur að sjá, þegar hann gegnur um Laugaveginn, prýddur gyltum borðum. Því þykist ég vita, að hann muni endurskoða þessa afstöðu sína og fara bara að hugsa um það alveg undir eins, líkt og hann Bastían bæjarfógeti gerði, þegar vanda bar að höndum í Kardimommubæ forðum tíð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Fólki á að leyfast að hafa sjálfstæðar skoðanir og þýðir ekkert fyrir trúarruglustrumpa sem hafa viðhorf og vinnubröð frá klepptækum erlendum trúarofstækismönnum og raða síðan sálufélögum sínum í yfirstjórn lögreglunnar, að fyrtast yfir því.
Baldur Fjölnisson, 28.9.2007 kl. 22:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.