15.9.2007 | 21:44
Strákurinn Árni Ísleifs áttræður
Árni Ísleifs og félagar tóku smá forskot á sæluna og fögnuðu áttræðisafmæli kappans í dag, þótt stóri dagurinn renni raunar ekki upp fyrr en eftir helgi, þann 18. sept. Það var slegið upp veislu í sal F.Í.H. í Rauðagerðinu og ekki vantaði nú, að mikið væri um dýrðir. Afmælisbarnið lék auðvitað á als oddi og píanóið að auki, eins og engill.
Þarna voru saman komnir ýmsir jassgeggarar, árgerð hitt og þetta og blandan skemmtileg eftir því. Björn R. Einarsson mætti með básúnuna, svona rétt undir hálfníræðu og blés af þokka. Raunar leiddi hann fyrstu íslensku jasshljómsveitina í Listamannaskálanum árið 1949. Og hver haldið þið, að hafi setið við píanóið þar, nema Árni Ísleifs! En ekki hver?
Já, og sjálfur Paba jass, Gvendur Steingríms., lét ekki sitt eftir liggja í dag, heldur barði húðirnar að eðlislægum þrótti og yndisþokka. Þá var ekki amalegt að hlíða á þau hjónin Hildi Guðnýju Þórhallsdóttur söngkonu og Eyjólf Þorleifsson saxafónleikara. Frábært. Hjörleifur Valsson fiðluleikari var á klassískum nótum og fór á kostum. Og þannig áfram.
Í tilefni dagsins kom út diskur með lögum Árna Ísleifs og kallast Rökkurblús, þótt auðvitað sé ekkert rökkur yfir þessum ágæta frænda mínum, síungum manninum. Það er ástæða til að óska þjóðinni til hamingju með karla eins og hann.
Flokkur: Menning og listir | Breytt 16.9.2007 kl. 14:46 | Facebook
Athugasemdir
Ég á erfitt með að trúa því að snillingurinn Árni Ísleifs sé orðin áttræður.
Ertu ekki að djóka
Þóra Sigurðardóttir, 15.9.2007 kl. 23:53
En ef svo er þá óska ég honum innilega til hamingju með afmælið
Þóra Sigurðardóttir, 15.9.2007 kl. 23:54
Getur verið að "Hákon" gangi daglega undir nafninu Hjörleifur Valsson?
Heimir Lárusson Fjeldsted, 16.9.2007 kl. 14:23
Mikið rétt Heimir og þakka þér fyrir ábendinguna.
Pjetur Hafstein Lárusson, 16.9.2007 kl. 14:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.