Sigfús Daðason, frh.

Verður sannleikans krafist af skáldum, án skilyrða? Tæpast. En tvímælalaust má krefjast af okkur skilyrðislausrar sannleiksleitar, enda er hún grundvöllur skáldskapar. Og skal nú fjallað um þann kafla bókar Þorsteins Þorsteinssonar um Sigfús Daðason, Ljóðhús, sem hann kallar „Neikvæðið í tilverunni og tímanum". Þarna eru tekin fyrir hin svonefndu „Bjartsýnisljóð" Sigfúsar, sem vægast sagt eru ekki á allra björtustu nótum og tilurð þeirra.

Sigfús átti við nokkurt andstreymi að etja í bernsku sinni og æsku, bæði sökum heilsuleysis og annars, sem rakið er í bókinni. Þegar hann fer til náms í Reykjavík, verður hann einskonar fóstursonur Kristin E. Andréssonar bókmenntakommisars og allt um þekjandi guðföðurs Máls og menningar. Og þegar hann kemur heim frá námi í Frakklandi um 1960, gerist hann starfsmaður forlagsins. Vökul hönd Kristins vakir því yfir hverri hreyfingu hins unga skálds.

Sigfús Daðason var sósíalisti. En auðvitað höfðu efasemdir skoðanabræðra hans um ágæti sovétvaldsins ekki farið framhjá honum meðan á Frakklandsdvölinni stóð. Og þegar sovétvaldið opinberaði ofbeldiseðli sitt eina ferðina enn í Tékkóslóvakíu árið 1968 skrifaði hann grein til birtingar í Tímariti Máls og menningar til að mótmæla innrásinni. En hún fékkst ekki birt. Henni var kippt út, en í staðinn sett grein eftir Kristin E. Andrésson, sýnilega í þeim tilgangi einum, að breiða yfir ofbeldi Kremlarherranna. Þetta og annað á sömu nótum, varð þess valdandi, að Sigfús leið fyrir veru sína undir handarkrika Kristins E. Andréssonar og skoðanabræðra hans.

En hvers vegna hélt maðurinn þá einfaldlega ekki á brott? Við því er ekkert einhlítt svar. Má þó velta því fyrir sér, hvert hann hefði átt að fara. Að vísu hafði hann glatað trú sinni á hinu sólíaliska jarðarhimnaríki. En kapitalismi hugnaðist honum ekki. Hann greindi einfaldlega ekki nokkra úrlausn mannlegrar tilveru samkvæmt kokkabókum efnishyggjunnar, hvort heldur frá vinstri né hægri. Sannleikann var með öðrum orðum hvorki að lesa á síðum Þjóðviljans né Morgunblaðsins. Því má ekki gleyma, að á sama tíma og kommúnístar héldu Austur-Evrópu í heljargreipum, stigu Bandaríkjamenn trylltan stríðsdans í Víetnem. Og vitanlega var nærvera hers þeirra á Íslandi Sigfúsi Daðasyni áhyggjuefni.

Nei, sannleikans verður ekki krafist af skáldum, frekar en öðrum dauðlegum mönnum; aðeins leitarinnar að honum. Það var ekki fyrr en að Kristni E. Andréssyni látnum og raunar nokkru síðar, að Sigfús Daðason fékk um frjálst höfðu strokið. Viðskilnaður hans við Mál og menningu verður ekki rakin hér í bili. Hins skal að lokum getið, að Sigfús var að eðlisfari nokkuð dulur maður og klifjaður nokkurri biturð úr heimahögum æsku sinnar. Hver svo sem ævikjör hans hefðu orðið, má telja næsta víst, að skáldskapur hans, sannleiksleitin, hefði borið þess nokkur merki.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband