11.9.2007 | 14:20
Lifi Kolaportið!
Skyldu ekki vera liðin tuttugu ár, síðan Kolaportið opnaði? Best gæti ég trúað því. Fyrst var það grafið inn í Arnarhól en flutti síðar í húsnæði í eigu Tollsins rétt handan við Kalkofnsveg. Það má því segja, að Kolaportið hafi frá fyrstu tíð verið undir Mammon sett, fyrst Seðlabankann á Arnarhóli og svo undir tollheimtumenn. Fer vel á því, enda er Kolaportið vettvangur líflegra viðskipta.
Þarna má kaupa flest það sem hugurinn girnist og rúmlega það. Þar eru seldar bækur og frímerki, Búddalíkneski, harðfiskur, skór og föt og meira að segja hermannaklæði, sérstaklega austan úr sovétunum sálugu, ef einhverjum skyldi nú detta í hug, að endurvekja þau í miðbæ Reykjavíkur. Ja, hvað veit maður svo sem...
En Kolaportið er ekki aðeins verslunarstaður. Það er líflegur markaður mannlegra samskipta. Þangað fer einmana fólk, drekkur saman kaffi og skiptist á skoðunum, ekki aðeins um þær vörur, sem í boði eru, heldur einnig um lífið og tilveruna. Sumir láta sér nægja spjalla um pólitíkina, aðrir ræða tilverunnar huldu rök, eins og gengur og gerist. Þetta er fólkið, sem veifaði pálmunum í Jerúsalem forðum tíð og mætti svo til að horfa á krossfestinguna á Golgata nokkrum dögum síðar. Með öðrum orðum; þetta er almenningur án dularklæða þeirrar yfirboðrsmennsku, sem nú er í hávegum höfð í heimi hér.
En nú stendur til, að þrengja að Kolapotrinu, lækka lofthæðina og minnka gólfflötinn. Það þarf nefnilega að fjölga bílastæðum, segja þeir vísu menn, sem sveipað hafa sig dulargerfi auðs og valds. En til hvers þarf að fjölga bílastæðum? Eru bílar ekki til þess gerðir, að í þeim megi ferðast á milli staða, þar sem mannlíf er? Það hélt ég. Því þykir mér skjóta skökku við, að menn telji sig með einhverjum hætti geta bætt mannlífið, með því að hrekja burt mannlíf fyrir farskjóta, sem þjóna þeim eina tilgangi, að koma mönnum milli manna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er ekki sama hvert mannlífið er.
Sigurður Þór Guðjónsson, 11.9.2007 kl. 17:09
Hnífskörp ályktun, Sigurður !
Greta Björg Úlfsdóttir, 11.9.2007 kl. 17:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.