Smekklaus auglýsing Símans

Þá er Síminn farinn að nota síðustu kvöldmáltíðina til að auglýsa vörur sínar og þjónustu.  Að vísu virðist málið ekki alveg á hreinu, því að sögn höfundar auglýsingarinnar, er hér ekki um auglýsingu að ræða, heldur einhverskonar trúboð og listaverk að auki.

Um fyrra atriðið er fátt eitt að segja, enda boða menn trú, hver með sínum hætti.  Það verður þó að teljast nokkuð undarlegt trúboð, að nota tækifærið og auglýsa ákveðna vöru í leiðinni.  Einhvern veginn á ég erftitt með að sjá, að Mammon fari saman við heilaga kvöldmáltíð, sem raunar er hvorki meira né minna en upphaf kristinnar kirkju.

Hinn listræni þáttur þessara auglýsingar er smekksatriði.  En á hitt má benda, að list getur leitt ýmislegt af sér og ekki allt gott.  Þannig efast menn ekki um listræna hæfileika Lenu Riefensthal, en hún gerði sem kunnug er áróðursmynd fyrir Hitler á flokksþingi nasista í Nurnberg árið 1934 og þótti takast vel frá listrænu sjónarmiði séð. 

Vonandi má líta svo á, að barnaskapur hafi ráðið ferðinni við gerð umræddrar auglýsingar, enda ljóst, að ekki ber að leggja nafn Drottins Guðs við hégóma, svo vitnað sé í boðorðin. 

Aðeins eitt ráð til höfundar þessarar auglýsingar: Forðastu auglýsingagerð í þeim löndum, þar sem múslímsk lög gilda!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ólafur:

"Finnst þessi auglýsing ekkert smekklausari en að birta myndir af Múhameð og ergja þannig hálfan múslimaheiminn."

Þér finnst sem sagt sú myndbirting hafa verið smekklaus? Er það vegna þess að þú teljir meiri ástæðu til að óttast viðbrögð herskárra múslima en hófsamari kristinna meðbræðra þinna hérlendis? Sennilega er þetta laukrétt athugað hjá þér - þú ert greinilega praktískt hugsandi maður, svo sem sympatía þín með viðskiptahagsmunum Símans ber með sér.

En þú mátt bóka að auglýsingin á eftir að birtast aftur, þrátt fyrir gott gengi við fyrstu sýningu, og gleðja eða pirra augu og eyru landsmanna, eftir atvikum, næstu vikurnar. 

Greta Björg Úlfsdóttir, 6.9.2007 kl. 00:45

2 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

...og sennilega líka rétt hjá þér að miklar umræður fari nú fram á Símanum um ágæti auglýsingarinnar...afsakið, trúboðsins, um nýja galdrasímann....

Greta Björg Úlfsdóttir, 6.9.2007 kl. 00:49

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Trúri þú nokkuð á guð annars Pjetur fremur en kapitalismann?

Sigurður Þór Guðjónsson, 6.9.2007 kl. 11:21

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Þetta var illgjörn en óneitanlega hnyttin athugasemd hjá þér nafni. Sumir láta eins og Mammon og Jehófi sé ein og sama persónan og dýrka þann fyrrnefnda a.m.k. í orði kveðnu. Annars væri verðugt verkefni fyrir vin minn, ættfræðinginn JVJ og aðrar stórkanónur að rekja ættir og niðjatal Mammons.

Sigurður Þórðarson, 6.9.2007 kl. 11:38

5 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Það var og!

Greta Björg Úlfsdóttir, 6.9.2007 kl. 12:06

6 identicon

Ég er ekki trúræknasti maður í heiminum en mér finnst auglýsingin klárlega ósmekkleg og það hefur ekkert með trú að gera. Jesú er söguleg persóna sem var myrtur af yfirvöldum þess tíma á hrottafenginn hátt. Að gera gis að seinustu kvöldmáltíð hans og samskiptum hans við þann sem seldi yfirvöldum hann í hendur, til þess að selja fleiri síma, hljóta allir að sjá að er smekklaus markaðsetning.

Þetta er eitthvað svipað því og að gera auglýsingu með einhverjum góðum grínara í líki Kennedy rétt áður en hann er skotinn í hausinn eða eitthvað því um líkt. Svoleiðis auglýsingu mætti eflaust einhvern veginn gera fyndna en það myndi seint réttlæta hana.

Eins dauði er annars brauð er máltæki sem er notað í síauknum mæli. Mér finnst það samt mjög athugavert að fyrirtæki á borð við Símann skuli sjá sig knúið til að beyta svo lúalegri markaðsetningu við að auglýsa vöru sína.

Síminn hefur þó áður gerst sekur um afar smekklausar lausnir í auglýsingum og er skemmst að minnast auglýsinga þar sem unglingar voru hvattir til að ,,fylla á frelsið". Þar var (af því er virtist) barnung stúlka látin skaka sér uppi í rúmi meðan hún skrafaði í símann. Því næst stendur hún upp og á meðan barmur hennar er í aðalhlutverki, en á honum er mælir sem fer úr tómu í fullt.

http://www.youtube.com/watch?v=UEo6aVTSNmM

Nú hrista eflaust margir hausinn og finnst þetta óþarfa viðkvæmni hjá mér. Það má vel vera. Mér finnst bara spes að nota unga krakka í auglýsingu ætluðum unglingum og nota á sama tíma svo augljós tákn af kynferðislegum toga. Þetta er að sjálfsögðu ekki stórmál, en finnst fólki orðið fullkomlega eðlilegt að stórfyrirtæki (á íslenskan mælikvarða) spili inná hormónastarfsemi unglinga til að þau tali meira í símann? Spila jafnvel inná barmstærðar komplexa? Er ég kannski alveg úti á túni með þetta eða hvað? Dæmið bara sjálf.

Þetta blikknar allavega í samanburði við að gera kómíska sketsa um aðdraganda dauða Jesú til að selja fleiri síma.

Spurning hvort það komi ekki ein góð auglýsing með Díönu Prinsessu frá þeim fljótlega. Ég get séð fyrir mér að það væri hægt að sjá einhvern húmor í dauða hennar líka ef menn hafa áhuga á að sjá húmor í dauða á annað borð. Það myndi vekja mikið umtal og svona.

Það fer rosalega í taugarnar á mér að mörgum finnst að ég hljóti að vera einhver bókstafstrúarmaður til að sjá eitthvað að þessu. Mér finnst það einfaldlega ögra almennu velsæmi að nota sorgaratburð eins og morðið á Jesú til að fá aukna athygli.

Nú er höfundur auglýsingarinnar sjálfur trúaður og finnst þá væntanlega að hann sé með skotleyfi á að gera grín að trúnni sinni. En það er heila málið; Þetta snýst ekkert um trú í mínum huga. Það er sama hvort það væri verið að grínast með hengingu Saddams Husseins í auglýsingu. Það er einfaldlega engum sæmandi að grípa til þannig ráða til að græða nokkrar auka millur og sýnir í raun aðeins hvað fólk er tilbúið að ganga langt fyrir athyglina.

Helgi Þór Harðarson (IP-tala skráð) 6.9.2007 kl. 14:22

7 identicon

Ég held að ekkert í biblíunni sé sögulega sannað.

Auglýsingin er vel gerð, drepfyndin, en það mætti eyða minna í svona flotta auglýsingaherferð og gefa síma eða tíma í notkun á símunum í stað.

Ari (IP-tala skráð) 6.9.2007 kl. 14:29

8 identicon

Mér finnst svívirðilegt af Símanum að særa tilfinningar mínar sem trúleysingja með því að slá upp svona sögum rétt eins og um sannsögulega atburði væri að ræða.  Mér finnst að þeir ættu í það minnsta að taka fram að um skáldsagnapersónur sé að ræða.

Helgi Briem (IP-tala skráð) 6.9.2007 kl. 15:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband